„Jæja, þá er farið að gjósa. Ég er strax komin með útundanótta og skjálftaöfund, því ég missti af öllum látunum síðast því ég var erlendis,“ segir Ugla Stefanía, formaður Trans Ísland. „Fjölskyldan meira að segja bókaði sér þyrluferð og sagði frá geggjuðum fjölskyldudegi á samfélagsmiðlum. Án mín. Smá skellur.

Annars er hápunktur Hinsegin daga í dag. Aldrei hefur verið mikilvægara að minnast sögu Hinsegin daga, sem eiga auðvitað rætur að rekja til kröfugöngu, þar sem óréttlæti, fordómum og útskúfun var mótmælt. Hinsegin fólk á Íslandi hefur nefnilega fyrir ótal mörgu að berjast enn þá ef marka má nýlegan pistil ritstjóra Morgunblaðsins og ummæli vararíkissaksóknara sem ýjaði að því að það væri ofgnótt af hommum á Íslandi.

Hinsegin fólk upplifir enn fordóma á Íslandi, eins og gelt úti á götu, einelti í skólum eða óréttmætar handtökur á Hinsegin dögum. Við höfum það vissulega gott hér, en það er kominn tími til að gyrða sig í brók og horfast í augu við bakslagið. Hvað ætlum við eiginlega að gera annað en að henda glimmer framan í okkur og mæta með fána á Arnarhól í dag?“