Stærsta frétta­­ljósmynda­sam­keppni í heimi, World Press Photo, opnaði í dag í Kringlunni. Mennta- og barna­mála­ráð­herra, Ás­mundur Einar Daða­son, opnaði sýninguna form­lega við há­tíð­lega at­höfn.

Ljós­mynd sem dóm­nefnd út­nefndi sem Frétta­mynd ársins var tekin af kanadíska ljós­myndaranum Am­ber Brac­ken fyrir The New York Times. Myndin sýnir kjóla hanga á krossum með fram veg­kanti, til að minnast barna sem létust í Kamloops Indian Resi­denti­al skólanum. Stofnunin var heima­vistar­skóli fyrir börn frum­byggja, rekinn í þeim til­gangi að að­laga þau að kanadísku sam­fé­lagi. Þann 19. júní 2021 fundust grafir með líkams­leifum allt að 215 barna við skólann í Bresku Kólumbíu.

Heima­vistar­skólar hófu göngu sína á 19. öld í Kanada en starf­semin var liður í þeirri stefnu að að­laga frum­byggja úr ýmsum sam­fé­lögum að vest­rænni menningu. Allt að 150.000 börn voru tekin með valdi af heimilum sínum og þeim bannað að tjá sig á eigin tungu­máli. Oft urðu þessi börn fórnar­lömb líkam­legrar og kyn­ferðis­legrar mis­notkunar. Rann­sóknir hafa sýnt að minnsta kosti 4.100 börn létust í skólum af þessu tagi. Kamloops-skólinn varð sá stærsti en í maí 2021 fundust með notkun rat­sjáa allt að 215 grafir barna í kringum svæðið. Það var stað­festing á munn­legum heimildum.

Mennta- og barnamálaráðherra á sýningunni í dag.
Mynd/Bent Marínóson

Sýningin sem nú er í Kringlunni saman­stendur af verð­launaðri mynd­rænni blaða­mennsku ársins 2021 auk staf­rænna frá­sagna. Sýningin er sett upp í göngu­götu á 1. og 2.hæð Kringlunnar. Hún er opin á af­greiðslu­tíma verslunar­mið­stöðvarinnar og mun standa yfir til 28. septem­ber.

World Press Photo eru sjálf­stæð sam­tök sem voru stofnuð í Hollandi árið 1955. Megin­mark­mið þeirra er styðja við og kynna störf frétta­ljós­myndara á al­þjóð­legum vett­vangi. Í gegnum tíðina hefur World Press Photo byggt upp sjálf­stæðan vett­vang fyrir frétta­ljós­myndun og frjálsa upp­lýsinga­miðlun. Til að gera mark­mið sín að veru­leika stendur World Press Photo fyrir stærstu og veg­legustu sam­keppni heims á sviði frétta­ljós­mynda á hverju ári. Vinnings­myndunum er safnað saman í farand­sýningu sem ár­lega nær til borga yfir 30 landa.

Að þessu sinni tóku þátt 4,066 at­vinnu­ljós­myndarar frá 130 löndum og sendu inn 64,823 ljós­myndir. Dóm­nefndin veitti 44 ljós­myndurum verð­laun í 8 efnis­flokkum og koma verð­launa­hafar frá 24 löndum.