Smáhýsi hafa notið aukinna vinsælda úti í heimi undanfarin ár. Ekki bara sem aukahús í garðinum eða við sumarbústaðinn heldur til að nota sem íbúðarhúsnæði. Lítil hús á hjólum hafa verið vinsæl meðal fólks sem vill ekki vera fangar húsnæðisláns og geta ferðast með heimili sitt þangað sem hentar hverju sinni.

Þessi lífsstíll býður upp á ákveðið frelsi en honum fylgja líka ýmsar áskoranir. Á meðan það getur verið þægilegt að vera laus við húsnæðislán getur það skapað vanda að vera ekki með skráða fasta búsetu. Eins og er er ekki leyfilegt á Íslandi að skrá lögheimili á tjaldsvæði eða gera húsið sjálft að lögheimili óháð staðsetningu. Þeir sem hyggjast búa í færanlegu húsnæði, eins og húsbíl, eða smáhýsi á hjólum, þurfa að hafa þetta í huga.

Eins þarf að huga vel að því hvaða hluti fólk vill hafa í slíkum smáhýsum þar sem eðlilega bjóða þau ekki upp á mikið pláss fyrir húsgögn eða geymslupláss. Það getur þó verið frelsandi að fara í gegnum dótið sitt og losa sig við það sem ekki er nauðsynlegt.

Búseta sem þessi gæti verið mjög spennandi fyrir fólk sem er komið á eftirlaun eða vinnur heiman frá sér. Þá er hægt að keyra milli staða þar sem leyfilegt er að geyma húsið yfir nótt og prófa jafnvel að búa í öllum landshornum í einum og sama mánuðinum.