Helgi Haraldsson gervigreindarsérfræðingur segir framtíðarsýn myndarinnar mögulega hafa verið helst til bjarta, og þó ekki.

„Mjög oft,“ segir Helgi Haraldsson léttur í bragði aðspurður hve oft hann hafi verið spurður út í Skynet og möguleg drápsvélmenni líkt og þau sem birtust fyrst í Terminator fyrir 36 árum. Helgi hefur enda starfað sem sérfræðingur á sviði gervigreindar hér heima og í Bretlandi undanfarin ár.

„Og ég er líklega ein sú hættulegasta manneskja til að tala við, því ég get kafað ansi djúpt ofan í þetta,“ segir hann og hlær. Helgi segist geta svarað því bæði játandi og neitandi, hvort nútímasamfélag sé nálægt því að verða gervigreindinni að bráð líkt og í kvikmynd James Cameron.

„Ég myndi segja að myndin sé rosalega bjartsýn. Það eru margir sérfræðingar sem skilja gervigreindina mjög vel en skilja hins vegar kannski ekki hvaða áhrif hún hefur til framtíðar,“ segir Helgi. Sýnin sé takmörkuð við það hvað hægt verði að gera með gervigreindina.

Helgi bendir á að gervigreindin muni leysa okkur öll af hólmi og að best væri ef komið yrði í veg fyrir hættulega þróun hennar. „En við komumst ekki þangað því að aðrir munu aldrei banna þetta og við höfum ekki stjórn á þessu.“

Vélmennin gætu fengið sjálfsvitund en Helgi spyr: Til hvers?

Glötun ekki í boði

„Og gervigreindin getur í dag gert það sem kannski örfáir verðlaunaðir eðlisfræðingar í heiminum gátu einir gert fyrir tíu árum síðan,“ útskýrir hann. Það þýði að hver sem er gæti brátt mögulega haft meiri völd en nokkurn tímann fyrr.

Helgi nefnir Kína og Bandaríkin sem dæmi um lönd sem þrói nú vopn með gervigreind með ógnvænlegum hraða. Þróun vopna þar sem manneskjur koma hvergi að verði mun hraðari. Spurður hvort möguleg frelsishetja eins og John Connor í Tortímandanum muni geta bjargað mannkyni framtíðarinnar frá tortímingu segir Helgi: „Nei, ekki séns.“

En stefnum við þá hraðbyri að glötun?

„Nei, ekki endilega. Það er tvennt sem getur gerst. Annaðhvort myndast ákveðið status quo í notkun gervigreindar á milli landa eða þá að þau munu takmarka vopna­notkun með gervigreind alfarið,“ útskýrir Helgi.

Hann segir að öllum líkindum hægt að búa til vélar með sjálfsvitund þótt margt sé á huldu um okkar eigin sjálfsvitund og hvort það sé hægt að vera með margar mismunandi sjálfsvitundir, hann bendir á að þær geti vel verið fleiri en bara okkar eigin.

„En það væri sennilega hægt að búa til vélar sem eru með sjálfsvitund. Auðvitað geturðu hermt eftir eigin upplifun og sett í vél, en til hvers?“ spyr Helgi.

„Væri ekki miklu betra að þróa gervigreind sem þjónar okkur? Því henni er alveg sama. Jafnvel ef þetta væri klárasta gervigreindin, á guðastigi, þá hefur hún ekkert frumkvæði til að breytast ef við höfum stillingarnar bara á ákveðinn hátt.“

Geimurinn næstur

Helgi segist telja að geimurinn verði svarið við öllum hugsanlegum vandamálum mannkynsins. Ef einhver væri John Connor í dag, þá segir Helgi að það væri að öllum líkindum Elon Musk.

„Þannig að ef við komum gervigreindinni út í geiminn, jafnvel þótt það yrði gervigreind sem myndi ekki hugsa um neitt nema eigin hagsmuni, eða væri stýrt af einhverjum sem hugsar þannig, þá hefðum við undankomuleið af jörðinni,“ útskýrir Helgi.