Eftirvæntingin eftir Spider-Man: No Way Home hefur verið gríðarleg. Forsala á myndina hefur verið með þeim allra stærstu sem sést hafa og heimasíður söluaðila um víða veröld hafa hrunið og farið á hliðina og biðraðir myndast, enda þykir leikstjóri myndarinnar og tveggja hinna síðustu, Jon Watts, hafa endurvakið spenninginn og eftirvæntinguna sem fylgdi fyrstu myndunum um Spider-Man.

Í fyrsta skipti frá því að Spider-Man birtist fyrst á hvíta tjaldinu er hulunni svipt af manninum á bak við ofurhetjuna í Spider-Man: No Way Home. Honum reynist erfitt að rækja ofurhetjuskyldur sínar, sem veldur togstreitu milli hans daglega lífs og hetjunnar og stofnar þeim sem honum þykir vænst um í hættu. Þegar hann leitar aðstoðar Dr. Strange við að koma böndum á leyndarmálið að nýju opnar seiðurinn göng yfir í aðra heima og öflugustu varmenni fjölheimanna sleppa í gegn. Nú stendur Peter Parker frammi fyrir verkefni sem breytir ekki aðeins hans eigin framtíð heldur líka framtíð fjölheima.

Í Spider-Man: No Way Home er Benedict Cumberbatch í hlutverki Dr. Strange. Norman Osborne kemur aftur til sögunnar, leikinn af Willem Dafoe eins og í fyrstu myndinni fyrir tæpum 20 árum. Hér bregður líka fyrir Alfred Molina í hlutverki Dr. Octopus og Jamie Foxx sem Matt Dillon/Electro. Svo sannarlega enginn skortur á sönnum skúrkum og illmennum, einmitt þegar hulunni er svipt af Peter Parker og jafnvel þeir sem hann fær til aðstoðar við sig reynast eitraðir andstæðingar. Þetta er Spider-Man eins og hann gerist bestur. Hér er boðið upp á sannkallaða veislu fyrir alla aðdáendur Spider-Man og ofurhetja frá Marvel.

Sýnt í öllum helstu kvikmyndahúsum.

Frumsýnd 17. desember 2021

Aðalhlutverk:
Tom Holland, Zendaya,
Benedict Cumberbatch,
Jakob Batalon,
John Favreau
og Marisa Tomei.

Handritshöfundar:
Chris McKenna og Erik Sommers.

Leikstjóri:
Jon Watts

Ekki ætluð yngri en 12 ára.

Fróðleikur

  • Tom Holland, sem leikur Spider-Man, hóf feril sinn í söngleikjum og fyrsta hlutverk hans var hlutverk Billy Elliot í samnefndum söngleik. Hann er líka mjög fær ballettdansari og varð fyrir einelti í skóla vegna dansáhuga síns.
  • Tom Holland er yngsti leikarinn til að leika Spider-Man og var aðeins 19 ára þegar hann var valinn í hlutverkið.