Kjördæmavika Alþingis er fram undan og þá ætlar þingflokkur Framsóknar að leggja upp í fundaferð um landið og nesta sig upp með sem flestum viðhorfum landsmanna fyrir stjórnmálabaráttu vorsins með yfir 50 opnum fundum.

Auglýsingin um ferðalagið hefur þegar vakið nokkra athygli enda mætti ætla að bruna eigi í hjólförum tilvistarkrepptrar fjölskyldunnar í kvikmyndinni Little Miss Sunshine þar sem hún bergmálar veggspjald bandarísku verðlaunamyndarinnar frá 2006.

„Það er nú bara til gamans gert að vekja svona athygli á fundaherferðinni og sýna að við erum samhent fjölskylda í þessu verkefni,“ segir Helgi Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, um þingflokksföruneytið sem stendur þétt saman ólíkt fjölskyldunni sem prýðir upprunalega veggspjaldið frá Hollywood.

Ásmundi Einari Daðasyni bregður fyrir sem sérfræðingi í Proust á meðan Líneik Anna Sævarsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir reka lestina.

Little Miss Sunshine fjallar um ferðalag mölbrotinnar stórfjölskyldu í hyldjúpri tilvistarkreppu yfir Bandaríkin þver og endilöng á gömlu Volkswagen-rúgbrauði í leit að merkingu og tilgangi með því að koma barnungri dótturinni, Olive, í ósköp lágkúrulega barnafegurðarsamkeppni.

Í för með hjónunum Sheryl og Richard eru meðal annarra andlega illa staddir ættingjar á borð við Steve Carell, í hlutverki samkynhneigðs sérfræðings í Proust í sjálfsmorðshugleiðingum, sonur þeirra sem er þögull bölsýnisspekingur og litla fegurðardrottningin sem þrátt fyrir ýmsa persónuleikabresti er einhverra hluta vegna geðþekkasta manneskjan í þessum furðulega flokki sem sólskinsfjölskyldan er.

Myndin vakti á sínum tíma mikla og verðskuldaða athygli og Alan Arkin hlaut til að mynda Óskarsverðlaun sem besti aukaleikarinn fyrir túlkun sína á afanum sem er hin versti dónakarl og sorakjaftur.

Í auglýsingu Framsóknarflokksins er dagfarsprúður formaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson, hins vegar kominn í stað afans, varaformaðurinn Lilja Alfreðsdóttir fetar í fótspor litlu sólskinsungfrúarinnar og hleypur á eftir grænu Framsóknarrúgbrauðinu sem Willum Þór Þórsson stýrir í stað leikarans Gregs Kinnear.