Tón­listar­há­tíðin Ung Nor­disk Musik (UNM) fer fram í Reykja­vík dagana 15. til 21. ágúst. UNM var stofnuð árið 1946 og er því ein elsta tón­listar­há­tíð sinnar tegundar. Há­tíðin flakkar á milli Norður­landanna og er þetta í tíunda skiptið sem hún er haldin hér­lendis.

Mark­mið UNM er að kynna verk eftir yngstu kyn­slóð tón­skálda og hljóð­lista­manna frá Norður­löndum og Eystra­salts­löndunum en í ár taka 39 tón­skáld þátt frá Ís­landi, Dan­mörku, Noregi, Sví­þjóð, Finn­landi, Eist­landi, Lett­landi og Litáen. Þemað í ár er „co·structing“, ný­yrði sem lýsir fram­sækinni sköpun sem byggist á þver­fag­legu sam­starfi úr ó­líkum áttum.

„Þetta þema er sprottið af því að það hafa orðið ýmsar breytingar í tón­sköpun bæði í stærra sam­hengi og á þessari há­tíð á síðast­liðnum árum og ára­tugum. Sem há­tíð sem styður við nýja tón­list höfum við náttúr­lega verið svo­lítið mikið tengd við akademíuna og klassískar tón­smíðar. En í gegnum árin sér maður að tón­skáld vilja mörg vinna þvert á miðla,“ segir Sól­ey Sigur­jóns­dóttir, einn skipu­leggj­enda.

Sóley Sigurjóns­dóttir, einn skipuleggjenda UNM.
Mynd/Aðsend

Að sögn Sól­eyjar rímar þemað vel við ís­lensku tón­listar­senuna en sam­sköpun og sam­vinna tón­skálda og tón­listar­flytj­enda hefur lengi verið ó­að­skiljan­legur hluti hennar.

„Mér finnst Ís­land svo sér­stakt í þessu að því leyti að það eru allir svo­lítið í öllu og snerta á mis­munandi flötum. Við erum að reyna að tækla það að tón­skáld eru ekki bara tón­skáld heldur líka flytj­endur og kannski líka að mála myndir eða gera mis­munandi hluti,“ segir hún.

Í að­draganda há­tíðarinnar í ár var haldin sér­stök lista­manna­dvöl á Ís­landi í mars í fyrsta sinn í sögu UNM.

„Þar voru 19 tón­skáld sem bjuggu til 18 ný verk sem verða svo frum­flutt núna á há­tíðinni. Þetta var lista­manna­dvöl sem var sér­stak­lega miðuð að sam­starfi á milli tón­skáldanna eða við flytj­endur eða að vinna á skemmti­legum stöðum,“ segir Sól­ey.

Á UNM 2022 munu á­horf­endur upp­lifa fjöl­breytt úr­val nýrrar tón- og hljóð­listar en há­tíðin er haldin víðs vegar um höfuð­borgar­svæðið í hefð­bundnum rýmum á borð við Mengi, Iðnó og Tjarnar­bíó, auk ó­hefð­bundinna rýma á borð við Rauð­hóla og Gróttu­vita. Dag­skráin saman­stendur af 24 við­burðum, tón­leikum, sýningum, pall­borðs­um­ræðum, kynningum, ör­vinnu­stofum og vett­vangs­ferðum. Nálgast má dag­skrána í heild á heima­síðu há­tíðarinnar: ungn­or­diskmusik.is.