Frambjóðendur nokkurra flokka munu koma saman í kvöld í Nexus til að spila Dreka og Dýflissur (e. Dun­geons & Dragons eða DnD) í tilefni af Alþingiskosningum.

Una Hildardóttir, frambjóðandi Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, fékk hugmyndina að vinaleiknum og safnaði saman liði með hjálp frá Birni Leví Gunnarssyni, frambjóðanda Pírata.

Una og Björn setja sig í karakter ásamt Katrínu Sigríði J. Steingrímsdóttir í Viðreisn og Hannesi Þórði Þorvaldssyni úr Sjálfstæðisflokknum en þau eru öll vanir DnD spilarar samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Einnig er möguleiki að fleiri frambjóðendur úr öðrum flokkum muni slást í hópinn.

Aðspurð um viðburðinn segir Una að kosningabarátta megi líka vera skemmtileg og á léttu nótunum.

„Við þurfum held ég öll í framboði á smá útrás og hlátri að halda og þá er gott að geta gripið í teningana og sleppa taumunum í eina kvöldstund,“ segir Una í samtali við Fréttablaðið.

Katrín Sigríður, Björn Leví, Una og Hannes Þórður munu bregða á leik í kvöld. Þau hafa ekki gefið upp um hvernig persónur þau munu leika svo Fréttablaðið ákvað að setja saman eitt mögulegt teymi.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Hlutverkaspilið fornfræga DnD er einn óumdeildra hornsteina vestrænnar nördamenningar en þar geta leikmenn búið til persónur sem flækjast inn í ævintýri leidd af leikstjórnanda sem kallast DM eða Dungeon Master.

Gísli Gunnar Didriksen Guðmundsson mun leiða frambjóðendur í gegnum ævintýrið en hann þekkir vel til sem vanur leikstjórnandi og spunanörd.

Gísli Gunnar verður leikstjórnandi eða Dungeon Master.

„Þar sem þetta eru meðlimir úr mismunandi flokkum ákvað ég að hafa þetta núll pólitískt. Þetta verður klassískt „björgum prinsinum“ ævintýri,“ segir Gísli Gunnar. Frambjóðendurnir verða staddir í eyðimörk í upphafi sögunnar og þurfa að vinna að saman til að finna téðan prins.

Segist Gísli vera spenntur fyrir því að leiða frambjóðendur í gegnum söguna og á hann von að stjórnmálafólkið haldi ekkert aftur af spunanum og ræðunum.

Frambjóðendurnir leika og spinna í einhleypu, þ.e. herferð sem tekur aðeins eitt kvöld, í kvöld og verður sýnt frá í beinni á samfélagsmiðlum.