Þetta er bragðmikill réttur og er bestur ef ást og gleði er sett í matargerðina. Kjúklingur er langbestur ef hann fær að marinerast yfir nótt, svo það væri sniðugast að byrja undirbúning strax í dag. Tikka Masala er réttur sem allir eru hrifnir af ef þeim líkar indverskur matur á annað borð.

Hér er einfaldur Tikka Masala kjúklingur en þarfnast tíma til að verða að eðalrétti sem á að lokka konurnar. Með svona mat getur maður ferðast í huganum til framandi landa.

Kjúklingur Tikka Masala

Til gaman má geta þess að Tikka þýðir beinlaust kjöt og Masala er kryddblanda gerð úr jógúrt. Þegar kjötið er látið liggja í jógúrtkryddblöndunni í sólarhring verður það ótrúlega meyrt og bragðgott. Uppskriftin miðast við fjóra.

800 g kjúklingabringa

1 dl hrein jógúrt

2 hvítlauksrif

3 cm fersk engiferrót

Safi úr hálfri sítrónu

½ - 1 tsk. chiliduft eftir smekk

1 tsk. kóríanderduft

1 tsk. cuminduft

Sósa

1 laukur

2 hvítlauksrif

3 cm engiferrót

4 msk. olía

1 tsk. cumin

1 tsk. rifið múskat

1 tsk. túrmerik

1 tsk. chiliduft

1 msk. garam masala

1 tsk. tómatpuré

1 dós tómatar í bitum

1,5 dl rjómi

1 dl möndlur eða kasjúhnetur

½ búnt ferskt kóríander

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Setjið jógúrt í skál ásamt pressuðum hvítlauk, smátt skornum engifer, sítrónusafa, chili, kóríander, cumin og salti. Blandið vel saman og leggið bitana í jógúrtið þannig að allir verði þaktir marineríngunni. Látið standa yfir nótt.

Skerið laukinn smátt. Rífið engifer niður í rifjárni. Hitið olíu í potti og steikið laukinn með hvítlauknum og engifer á miðlungshita. Bætið þá við cumin, múskati, túrmerik, chili, garam masala, tómatpuré og tómötum. Látið suðuna koma upp og látið malla í nokkrar mínútur áður en rjóminn er settur saman við.

Hitið olíu á pönnu. Steikið kjúklingabitana þar til þeir fá á sig fallegan lit. Þegar þeir eru steiktir í gegn eru þeir settir út í sósuna ásamt marineríngunni sem eftir varð í skálinni. Setjið möndlur eða hnetur saman við sem hafa verið skornar smátt.

Látið allt malla í um það bil 10 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar eftir þörfum. Kóríander er settur útí í lokin.

Berið réttinn fram með naan-brauði, hrísgrjónum, raita-sósu og mango chutney.

Heimagert naan-brauð er nauðsynlegt með Tikka Masala.

Naan-brauð

Það er vitaskuld best að bjóða upp á heimagert naan-brauð. Hvernig væri að koma frúnni á óvart?

1,5 dl mjólk

25 g ger

1 msk. sykur

500 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

1,5 dl hrein jógúrt

4 msk. olía

50 g brætt smjör

Til að setja ofan á:

1 msk. sesamfræ

Kóríander

Pressaður hvítlaukur og smjör

Hitið mjólkina þar til hún verður fingurvolg og setjið gerið út í. Setjið sykur saman við og látið blönduna standa þar til gerið fer að bubbla.

Setjið í hrærivélarskál hveiti, lyftiduft og salt og hrærið saman. Bætið gerblöndunni saman við og hnoðið allt saman í 10 mínútur. Deigið á að vera frekar blautt en það má bæta hveiti eða jógúrt við til að fá það sem best að vinna með.

Setjið plastfilmu og síðan viskastykki yfir skálina og látið standa í klukkustund. Skiptið deiginu þá í sex hluta og látið hefast aftur í 20 mínútur.

Hitið ofninn í 250 °C. Setjið smávegis hveiti á borðið og fletjið brauðin út. Stingið þau með gaffli svo þau blási upp við bökun. Penslið brauðið með bræddu smjöri sem hvítlaukur hefur verið settur saman við. Stráið smátt skornu kóríander saman við.

Leggið á bökunarpappír á bökunarplötu og bakið í nokkrar mínútur, eða þangað til brauðið er farið að taka lit og lyfta sér. Þetta er hægt að gera á pitsustein eða útigrilli ef það er fyrir hendi.

Gott ráð er að pensla brauðið aftur eftir bökun á meðan það er heitt. Berið fram með Tikka Masala.

Raita-sósa

Þessa sósu er mjög einfalt að laga en hún passar vel með sterkum mat.

3 dl hrein jógúrt

1 agúrka

2 vorlaukar

1 grænn chili-pipar

1 tsk. salt

Rífið agúrku með góðu rifjárni. Dreifið salti yfir og látið standa í fimm mínútur. Setjið gúrkuna í hreinan klút og vindið þannig að vökvinn renni af. Hreinsið vorlaukinn og skerið smátt. Fræhreinsið chili og skerið mjög smátt. Þeir sem vilja geta sleppt chili. Blandið öllu saman og látið standa í kæliskáp í minnst 30 mínútur.