Guðni Th. Jóhannesson.

„Svo klikkar auðvitað ekki að ljúka tónleikunum á Kvaðningu, einu besta rokklagi Íslandssögunnar,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands um tónleika Skálmaldar sem hann sótti um helgina. Forsetinn fer ekki í grafgötur með að hann sé mikill aðdáandi sveitarinnar. Hann hefur meðal annars mætt í bólusetningu í bol sveitarinnar.

Skálmöld er ekki eina þungarokkið sem hann hlustar á. Þegar hann er úti að hlaupa ratar ekki aðeins Skálmöld á lagalistann heldur einnig Dimma og Sólstafir.

Joko Widodo

Forseti Indónesíu er mikill aðdáandi metalsins og hefur sagt að rokk og ról sé hans ástríða. Hann sé einn af þeim sem slaki á með ofboðslegan hávaða í eyrunum. „Ég hlusta á minn metal hátt. Það verður að gerast. Allt frá Metallica til Led Zeppelin,“ sagði hann við AFP fréttastofuna í Indónesíu skömmu áður en hann gekk inn á tónleika Metallica.

Barack Obama

Kannski langsótt en þegar Obama var eitt sinn með forseta Finnlands í heimsókn hjá sér minntist hann á metal senuna í Finnlandi í ræðu sinni. Það þótti mjög töff. „Finnar eiga flest þungarokksbönd miðað við höfðatölu,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Harrý Bretaprins

Leikarinn Dominic West sagðieitt sinn að hann hefði séð hvað prinsinn væri með á sínum playlista. Þar mátti finna Metallica, Slayer, Megadeth og Anthrax enda þungarokk fyrir alla - líka þá sem eru konungsbornir.

Jim Carrey

Grínistinn gerði Cannibal Corpse að stórsveit með léttri innkomu í eftirminnilegu atriði í Ace Ventura. Hann hefur líka hermt eftir Barney Greenway í bresku sveitinni Napalm Death þegar hann var gestur í Arsenio Hall.

Margot Robbie

Í viðtali við Jimmy Fallon sagði Robbie að hún hefði farið á Slipknot tónleika. „Jafnvel þó þú fílir ekki þungarokk held ég að allir muni njóta tónleika með Slipknot, þeir eru svo rosalegir,“ sagði hún í þættinum. Hún hefur áður hrósað Bullet for My Valentine, sem er nú reyndar frekar leiðinlegt band.

Stephen King

Kóngurinn í myrkrinu er eðlilega í miklu sambandi við gítarriff og bassatrommur. Hann hefur oftar en ekki tíst um tónlistarval sitt og er þar minnst á Slayer, Black Sabbath, Motorhead, Metallica og jafnvel Judas Priest.

Þá hefur hann sagt að hann blasti Guns N´Roses í rauðabotni þegar hann sest við skriftir.

Lady Gaga

Kannski finnst henni bara þungarokksbolir geggjað töff en Lady Gaga hefur oft verið í Iron Maiden bolum og Slayer. Þá söng hún Moth Into Flame með Metallica á Grammy hátíðinni ekki alls fyrir löngu.

Kristian Nairn

Hodor sjálfur úr Game of Thrones hefur djammað með Dave Mustaine og Megadeath. Þótti slá gítarstrengina af mikilli snilld eins og sjá má. Holy Wars er allt annað en létt lag.