Bernardine Evari­sto er einn af þekktustu rit­höfundum Bret­lands og heimsins í dag. Hún hefur sent frá sér tíu bækur en einna þekktust þeirra er skáld­sagan Stúlka, kona, annað, sem Evari­sto hlaut hin virtu Booker-verð­laun fyrir 2019, auk þess sem bókin var valin skáld­saga ársins á British Book Awards og Evari­sto höfundur ársins sama ár.

Blaða­maður hitti Evari­sto á Vinnu­stofu Kjarvals í Austur­stræti. Spurð um hvort hún væri að koma til Ís­lands í fyrsta skiptið kvað Evari­sto þetta vera sína fjórðu Ís­lands­heim­sókn.

„Mér líkar vel við Ís­land þannig að þegar mér var boðið að koma á há­tíðina hugsaði ég mig ekki tvisvar um af því að ég hef ekki komið hingað í nærri tuttugu ár. Ég kom hingað þrisvar fyrir nærri tveimur ára­tugum og hafði mjög gaman af. Það sem mér líkar best við höfuð­borgina er hversu hljóð­lát hún er, maður getur andað og gengið um án þess að rekast utan í annað fólk. Landið virðist mér vera mjög sið­menntað,“ segir hún.

Bernardine Evaristo hefur komið fjórum sinnum til Íslands og líkar vel við land og þjóð.
Fréttablaðið/Getty

Um­deild en vin­sæl

Bernardine Evari­sto er fyrsta svarta konan og fyrsta svarta manneskjan af breskum upp­runa til að hljóta Booker-verð­launin. Hún deildi verð­laununum 2019 með Margaret Atwood sem hlaut þau fyrir bókina The Testa­ments.

Telur þú að árangur þinn hafi rutt brautina fyrir aðrar svartar konur og þel­dökkar mann­eskjur í al­þjóð­lega bók­mennta­heiminum?

„Ég held að ég hafi fengið mikla at­hygli fyrir það að vera sú fyrsta og einnig af því að valið þótti um­deilt vegna þess að ég og Margaret At­wood deildum verð­laununum. Þannig að stóru kast­ljósi var lýst á mig sem ég held að hafi valdið gáru­á­hrifum. Ég get ekki eignað mér heiðurinn af því al­gjör­lega en stað­reyndin að ég hafi verið fyrsta svarta konan til að vinna Booker-verð­launin og auk þess verið sex­tug á þeim tíma, þetta var mín áttunda bók, bók sem fjallaði að mestu leyti um svartar konur, skipti sköpum af því allir þessir hluti voru ekki endi­lega það sem út­gef­endur voru að leita að.“

Evari­sto segir þetta hafa fengið út­gef­endur til að endur­hugsa við­horf sín til þess að gefa út bækur eftir svört kven­skáld og svarta höfunda al­mennt. Þá segir hún að Booker-­verð­launin hafi orðið til þess að fjöldi les­enda sem vana­lega hefðu ekki á­huga á bókum um reynslu­heim svartra kvenna hafi lesið Stúlka, kona, annað, en bókin hefur selst í yfir milljón ein­taka og verið þýdd á rúm­lega 40 tungu­mál.

„Ég get sagt þér að þegar ég vann Booker-verð­launin þá braut það niður vegginn á milli verka minna og les­enda sem myndu vana­lega ekki telja sig hafa á­huga á verkum mínum. Ég veit að bókin hefur náð til alls konar les­enda og ég fæ við­brögð um að þeir kunni að meta hana og tengi við hana. Þetta er fólk frá alls konar sam­fé­lögum. Ég held að málið með bók­menntir sé að þær ná út fyrir hópinn sem þú ert að skrifa um.“

Bernardine Evaristo deildi Booker-verð­laununum 2019 með Margaret Atwood sem hlaut þau fyrir bókina The Testa­ments.
Fréttablaðið/Getty

Rót­föst og sjálfs­örugg

Evari­sto gaf út sína fyrstu bók árið 1994 þegar hún var 35 ára, ljóða­bók sem heitir Is­land of Abra­ham og höfundurinn var lengi vel ekki mjög stolt af. Fyrir þann tíma hafði hún starfað sem leikari og leik­skáld og stofnaði fyrsta breska leik­húsið sem var al­gjör­lega skipað svörtum konum 1982, Theat­re of Black Wo­men.

Hvernig er til­finningin að verða allt í einu heims­þekktur höfundur eftir svo mörg ár á jaðrinum?

„Þetta var ferli sem gerðist yfir nótt en var fjöru­tíu ár í vinnslu. Þetta er eitt­hvað sem ég er virki­lega þakk­lát fyrir. Af því ég náði í gegn á efri árum er ég með mjög sterkar undir­stöður. Ég er ekki ein­hver á þrí­tugs­aldri sem verður frægur yfir nótt og kann ekki að höndla það. Veit ef til vill ekki hver hún er að fullu leyti. Ég veit hver ég er, ég veit hvað ég vil skrifa, ég er með mitt eigið sam­skipta­net, vini og fjöl­skyldu. Ég er mjög rót­föst í mínu lífi, minni sköpun og mínu sjálfs­trausti. Þannig að þetta er eitt­hvað sem ég hef getað tekið opnum örmum og af heilum hug.“

Evari­sto bætir því við að hún sé með­vituð um að hún hefði allt eins ekki getað unnið Booker-verð­launin.

„Þannig að mér finnst það vera mín skylda að vera þakk­lát. Og vegna þess að ég hef verið að­gerða­sinni svo lengi þá hefur það gefið mér vett­vang til að bjóða öðrum að vera með og láta mína rödd heyrast.“

Þetta var ferli sem gerðist yfir nótt en var fjöru­tíu ár í vinnslu. Þetta er eitt­hvað sem ég er virki­lega þakk­lát fyrir.

Lætur ekki undan þrýstingi

Finnst þér árangur þinn hafa breytt því hvernig þú skrifar? Verið frelsandi eða heftandi?

„Það er mjög erfitt að segja því á eina höndina reyni ég að láta ekki vel­gengni Stúlka, kona, annað verða að pressu fyrir mig til að mæta henni með mínu næsta skáld­verki. Af því næsta bókin verður eins og hún verður og lendir þar sem hún lendir. Ég veit að ég mun hafa stærri les­enda­hóp en áður, fyrir Booker-verð­launin, en maður getur ekki séð fyrir vel­gengni bóka, ég held ekki. Þannig að ég reyni að losa mig við það og láta ekki undan þrýstingnum. Og á sama tíma verð ég að ganga úr skugga um að ég hafi sama frelsi og ég hef alltaf haft til að skrifa um hlutina sem ég vil skrifa um.“

Bernardine Evari­sto fjallar gjarnan um hin­segin mál­efni og hin­segin fólk í verkum sínum. Í bókinni Stúlka, kona, annað eru nokkrar per­sónur sem eru á „hin­segin rófinu“ eins og hún kallar það, og fyrri bók hennar, Mr. Lover­man, fjallar um sam­kyn­hneigðan kara­b­ískan mann á efri árum. Evari­sto hefur sagt frá því í við­tölum að hún lifði sem lesbía í um ára­tug á sínum yngri árum en er nú gift manni og segist ekki líta á sig sem hin­segin rit­höfund.

Stúlka, kona, annað er áttunda bók Bernardine Evaristo.
Kápa/Mál og menning

Ást­ríða og sköpun mikil­vægust

Undan­farin ár hefur borið á á­kveðnu bak­slagi í réttindum hin­segin fólks, meðal annars í heima­landi þínu Bret­landi. Finnst þér mikil­vægt að á­varpa þessa hluti og skrifa um hin­segin fólk?

„Ég held að það sé mikil­vægt fyrir okkur öll sem erum að skrifa að fjalla um heiminn eins og hann er og láta ekki eins og við búum í gagn­kyn­hneigðum heimi. Þess vegna er ég með nokkrar konur á hin­segin rófinu í Stúlka, kona, annað. Ég vildi ekki að þetta yrði gagn­kyn­hneigð skáld­saga af því það er ekki sönn birtingar­mynd af því sem við erum. Það er líka einn kyn­segin karakter í bókinni af því það er eitt­hvað sem er mjög al­gengt á þessari stundu. Mér finnst að rit­höfundar ættu að vera nógu hug­rakkir til að skrifa út fyrir sinn eigin sam­fé­lags­hóp því ef við gerum það ekki erum við að tak­marka okkur. Ég veit að það er pressa á fólk að gera það ekki en ég er ekki sam­mála því.“

Það tók þig langan tíma að ná árangri sem rit­höfundur, hvaða ráð myndir þú gefa ungum rit­höfundum sem eru að berjast í bökkum?

„Það mikil­vægasta er að skrifa af því þú ert með ást­ríðu fyrir því og að vera al­gjör­lega ein­beittur og trúr þinni sköpunar­gáfu og tjáningu, hvernig sem þú vilt láta það verða að veru­leika. Það er það allra mikil­vægasta. Síðan þarftu að vera úr­ræða­góður er kemur að því að skapa þér feril og stundum þolin­móður. Það fá ekki allir tæki­færi fyrst um sinn og ef þú færð tæki­færin snemma þá gætirðu misst móðinn snemma. Stundum er betra að hlutirnir gerist þegar þú ert orðinn þroskaðri.“

Mér finnst að rit­höfundar ættu að vera nógu hug­rakkir til að skrifa út fyrir sinn eigin sam­fé­lags­hóp því ef við gerum það ekki erum við að tak­marka okkur.