Félag Meðvitaðra foreldra er hópur fólks sem stundar, hefur áhuga á eða vill fræðast meira um virðingarríkt uppeldi. Það hefur verið starfrækt í um tvö ár og heldur nú uppi hlaðvarpsþættinum Virðing í uppeldi. Þær Kristín Björg Viggósdóttir, Guðrún Birna Le Sage, Guðrún Inga Torfadóttir, Perla Hafþórsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir og Elsa Borg eru allar félagar í hópnum.

„Við komum úr ýmsum áttum og erum á mismunandi aldri. Við höfum allar á einum tíma eða öðrum unnið með börnum og foreldrum.“ segir Elsa Borg. Eva Rún bætir við að þær eigi það sammerkt að hafa ástríðu fyrir virðingarríku uppeldi. „Við höfum gaman af því að hitta aðra foreldra í svipuðum hugleiðingum,“ segir hún.

„Nokkrar okkar hafa skipt um kúrs í starfi nýlega af þessum sökum og ein okkar til að mynda hætti að starfa sem framhaldsskólakennari í þýsku og starfar nú sem deildarstjóri í leikskóla.“ segir Perla Hafþórsdóttir og heldur áfram. „Ég er síðan deildarstjóri í leikskóla og stóð á krossgötum með ungt barn og langaði í listnám, starfa í fjölmiðlum eða eitthvað slíkt en uni mér vel í starfi í dag með tveggja ára börnunum á deildinni minni. Þá er önnur nýlega búin að ljúka doulunámi og er menntaður klæðskeri en er nú farin að starfa við kennslu í fimm ára bekk. Þá er ein okkar í meistaranámi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, ein okkar iðjuþjálfi en enn önnur er með tvöfalda meistaragráðu í lögfræði. Og ég er táknmálstúlkur og þetta virðingarríka hugarfar hefur oft hjálpað mér í vinnunni, segir Eva Rún og kímir. „Samtals erum við um 10 sem erum virkar í starfinu akkúrat núna.“

Virðingarvakning og pop-up leikvellir

„Mikil stemning hefur skapast í samfélaginu í kringum vakningu tengdri virðingarríkum uppeldisaðferðum og er stór íslenskur hópur tileinkaður þeim á Facebook.” segir Kristín Björg og heldur áfram. „Sumarið 2017 dreif upphafskona þessarar umræðu allrar, Kristín Maríella, í því að halda Pop-up ævintýraleikvöll og fékk nokkrar okkar til liðs við sig. Eftir þá samvinnu vildum við skapa vettvang fyrir foreldra til að deila reynslu og mæta eftirspurn foreldra um efni og fræðslu á íslensku um virðingarríkar uppeldisnálganir.“ „Já það kveikti í okkur að gera eitthvað meira,“ segir Eva Rún.„Við höfum fengið styrk frá Barnamenningarsjóði og notið samvinnu og aðstöðu Listasafns Reykjavíkur til að halda ævintýraleikvelli, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Kristín Björg.

Af síðasta pop-up leikvelli.
Mynd / Aðsend

„Að nálgast hegðun og þroska barnsins af virðingu og setja sambandið við barnið í fyrsta sæti.“ segir Guðrún Birna. „Þetta snýst um viðhorfsbreytingu og að innleiða grunngildin virðing, traust og tengsl.“

„Nálgunin gengur einnig út á að sýna okkur sjálfum virðingu, jafn mikilvægt er að setja barninu mörk og að við sem foreldrar þekkjum okkar mörk og stöndum vörð um þau.“ segir Elsa Borg. „Við setjum mörk með miklum stuðningi og samkennd en ekki með verðlaunum og refsingum. Við setjum fókusinn á langtímamarkmiðið á uppeldi í stað þess að ná stjórn á einstaka hegðunarvandræðum“ segir Perla.

Að varðveita töfrana

Meðal starfs félagsins eru mánaðarlegir foreldramorgnar- og kvöld sem haldin eru á Kaffi Laugalæk ásamt mánaðarlegum bókaklúbbi. „Við skiptumst á að leiða inngang í takt við fræðsluþema mánaðarins og svo fær hver og einn tækifæri til að deila eigin reynslu tengt málefninu,“ segir Kristín Björg. „Mig hafði líka lengi langað til að stofna bókaklúbb og hitta aðra foreldra í svipuðum hugleiðingum því ég finn svo oft fyrir þörf til að spjalla og tjá mig eftir að hafa lesið það sem ég tengi sterkt við og hefur áhrif á mig,“ segir Eva Rún. „Svo bauð Elsa mér í kaffi til sín einn daginn og ég komst að því að hún væri á sömu línu svo við kýldum á það,“ og Elsa bætir við: „Við höfum einn viðburð í mánuði og hittumst tvisvar fyrir hverja bók, sem gerir fólki kleift að mæta þótt það sé ekki komið langt í lestrinum.“ „Smátt og smátt vatt vinnan upp á sig við undirbúning foreldramorgna og vorum við farnar að leggja meiri og meiri vinnu í að þýða greinar og gera útdrætti úr bókum fyrir foreldrahittingana.“ Segir Guðrún Inga. „Á einum funda okkar kom upp þessi hugmynd, enda Íslendingar farnir að verða opnari fyrir hlaðvarpsgerð, og þá voru við þrjár kjarkmiklar sem vorum tilbúnar að taka af skarið og á endanum hafa allar komið í þætti og talað.

Hvernig er andrúmsloftið í þáttunum?

„Áhersla er lögð á að í hlaðvarpsþáttunum sé talað út frá eigin reynslu ásamt því að koma að fræðsluefni, svipað og umræður ganga á foreldrahittingum okkar,“ segir Guðrún Inga. „Þar myndast oft slíkir töfrar að við sáum eftir því að eiga ekki upptökur af þeim. Ef við fáum til okkar sérfræðinga um tiltekið málefni leitumst við eftir því að fá persónulegar sögur frá þeim eða að hafa einhverjar okkar viðstaddar til að sjá um að gera það. Við erum öll að læra.“

Nýjasti þáttur hlaðvarpsins er annar hluti um fræði Alfie Kohn og skilyrðislaust uppeldi. Í fyrri þættinum var rætt um þá vankanta sem fylgja skilyrðingu í uppeldisaðferðum, en í þætti vikunnar eru teknar fyrir 12 grunngildi skilyrðislauss uppeldis að mati Alfie.

Hægt er að hlusta á þáttinn á Spotify, iTunes og Hlaðvarpi Fréttablaðsins.