Ingimar Þórhallsson ljósmyndari hefur opnað ljósmyndagallerí á neðri hæð verslunar sinnar nomad., á horni Laugavegs og Frakkastígs. Ingimar stundaði BA-ljósmyndanám í University of the Arts í London, en flutti heim í fyrravor og stofnaði verslun og nú ljósmyndagallerí.

Tækifæri fyrir nemendur

„Mig hafði lengi langað til að opna eigið gallerí og sá möguleika á því eftir að ég stofnaði þessa verslun, en neðri hæðin nýtist vel sem slíkt pláss. Galleríið var opnað á Menningarnótt og Páll Stefánsson ljósmyndari er fyrstur til að sýna þar og ég hlakka til samstarfs við fleiri listamenn,“ segir Ingimar.

Sýning á verkum Páls Stefánssonar stendur nú yfir í nomad. studio.

„Markmiðið með þessu galleríi sem kallast nomad. studio er að veita ungu listafólki ásamt þeim sem lengra eru komin í listinni tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri í miðbæ Reykjavíkur. Ég þekki af eigin raun að það er erfitt að fá sýningarpláss og getur það reynst kostnaðarsamt. Við bjóðum fólki upp á að sýna allt frá einni viku upp í fjórar. Ég mun auglýsa galleríið í Listaháskólanum, Myndlista- og Ljósmyndaskólanum því hér er frábært tækifæri fyrir unga nemendur til að halda sýningar og afla sér þannig reynslu. Markmiðið er sömuleiðis að efla lista- og menningarlíf á Laugaveginum, þar sem fá pláss eru af þessum toga.

Minningar af atburðarás

Sýning Páls Stefánssonar nefnist 1958 m og stendur til 24. september. Ingimar segir að nokkrar umsóknir um sýningar í galleríinu hafi þegar borist og verið sé að fara yfir þær. Sjálfur mun hann sýna verk sín á sýningu í nóvember.

„Ég sérhæfi mig í landslagsmyndum og tek mikið af myndum af hafinu. Ég er ekki endilega að eltast við að fanga náttúruna eins og hún blasir við mér, heldur eru myndirnar frekar minningar af tiltekinni atburðarás sem ég sé fyrir mér. Ég notast við alls konar efni og tækni til að framkalla þessa sýn, t.d. hreyfingar á myndavélinni, prentuð tauklæði og filmur sem ég set fyrir framan linsuna. Útkoman verður þá gjarnan abstrakt og óljós sem krefst þess að áhorfandinn sæki í eigin minningar úr náttúrunni. Mér finnst líka spennandi að gera fjarlægðir og stærðir dálítið óræðar þannig að áhorfandinn er kannski ekki alveg viss hvert myndefnið er, en það eru alltaf formin og litirnir sem ráða ferðinni.“

Ingimar segist einnig hrifinn af samstæðum og andstæðum. „Ég stilli stundum tveimur eða fleiri myndum hlið við hlið. Önnur myndin er til dæmis af náttúrulegum fyrirbærum eins og straumum hafsins á móti mótuðum formum eins og fiskikörum og trollnetum. Út frá þessu verður til ákveðið sjónarspil og saga sem hver og einn getur túlkað að vild,“ segir Ingimar að lokum.