„Árið 2012 fæ ég greiningu á dóttur mína og staðfestingu á því sem mig hafði lengi grunað – að dóttir mín væri einstök, eftir langa baráttu um að fá svör,“ segir Aðalheiður Sigurðardóttir, í nýjasta þætti hlaðvarpsins Virðing í uppeldi.

Aðalheiður er móðir stúlku á einhverfurófi og starfar í dag sem fyrirlesari og samskiptaráðgjafi fyrir foreldra og fagfólk bæði hér heima og í Noregi. Hún er stofnandi verkefnisins Ég er unik og hefur í samstarfi við Einhverfusamtökin og Blár apríl - styrktarfélag barna með einhverfu haldið fjölmarga fyrirlestra og fræðslu, bæði fyrir skóla, stofnanir og foreldra.

Í þættinum spjallaði Aðalheiður við Guðrúnu Birnu le Sage og Kristínu Björgu Viggósdóttur og sagði þeim frá reynslu sinni sem móðir barns á einhverfurófi. „Enn þann dag í dag hefði ég viljað óskað að ég hefði fengið svör fyrr, svo ég hefði getað skilið hana fyrr,“ segir Aðalheiður. Í þættinum talar hún um áfallið sem greiningin er fyrir foreldri og hið langa ferðalag að finna réttu úrræðin fyrir stúlkuna sína og koma á samvinnu við skólayfirvöld.

„Ég fékk þessa gríðarlegu þörf til að skilja þetta betur,“ segir Aðalheiður sem lýsir því hvernig hún hefur tekið sér hlutverk túlks fyrir dóttur sína við skólann hennar og hvernig samvinnan hefur verið hjá þeim til þess að gera líf dóttur hennar í skólanum bærilegt. „Ég fann fljótt fyrir ákveðinni skekkju, að fókusinn væri svo mikill á að þjálfa hana til að passa inn í samfélagið. Mér fannst það ekki rétt því ein af hennar stærstu áskorunum er einmitt að aðlagast“.

Þegar barnið þitt er í uppnámi eða sýnir erfiða hegðun þá er það tilfinningin sem liggur að baki viðbragðinu þínu sem skiptir mestu máli.

Aðalheiður lýsir því líka hvernig hún getur unnið með barninu sínu skref fyrir skref, í gegnum það sem hún nefnir lykla. Þannig hjálpar hún dóttur sinni að gera nýja hluti, sem Aðalheiður veit að hún myndi hafa gaman af eða séu mikilvægir fyrir hana að þjálfa upp. Þá geti hún virt þegar dóttir hennar segir „NEI“ eða sýnir mótþróa og fundið svo smávægilegar leiðir til að feta sig með henni í átt að nýju verkefni.

„Þegar barnið þitt er í uppnámi eða sýnir erfiða hegðun þá er það tilfinningin sem liggur að baki viðbragðinu þínu sem skiptir mestu máli,“ segir Aðalheiður. „Ef í þér blundar undirliggjandi reiði eða pirringur þegar þú mætir erfiðri hegðun eða uppnámi hjá barninu þínu, þá finnur það tilfinninguna, þó þú reynir að fela hana, undir fögrum orðum og leiknu brosi. Það getur kastast til baka og virkað í staðinn eins og olía á eldinn eða rofið sönn tengsl. Þess vegna er viðhorfsbreyting nauðsynleg og það að velja að mæta barninu þínu frá sjónarhorni væntumþykju og lausnamiðunar. Með vilja til að finna lausn og leið sem er góð fyrir alla.“

Þá talar Aðalheiður um að hún hafi lært að undrast yfir viðbrögðum dóttur sinnar, í stað þess að dæma eða stimpla tjáningu hennar og hegðun. „Þegar þú undrast og ert forvitin, þá fylgir því ósjálfrátt tilfinning væntumþykju. Þú horfir lengra en hegðunin og vilt skilja hvað liggur henni að baki. Hvernig get ég hjálpað barninu mínu að gera betur og líða betur? Barnið finnur tilfinninguna, samkenndina og væntumþykjuna og verður þegar í stað öruggara og samvinnufúsara.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild hér fyrir neðan.