Balletinn No Tomorrow eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur verður fluttur á hátíðinni Gjörningaþoku í Listasafni Reykjavíkur á sunnudag. Upphaflega stóð til að sýna verkið í Moskvu í tengslum við sýningu Ragnars, Santa Barbara, í listasafninu GES-2, en Ragnar ákvað að loka sýningunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

„Þetta er gamli góði ballettinn okkar. Þetta er bara hits only,“ segir Ragnar kíminn eins og hans er von og vísa.

No Tomorrow var upphaflega frumsýnt á sviðslistahátíðinni Fórn í Borgarleikhúsinu árið 2017 í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og hefur verkið verið sýnt víða um heim undanfarin ár. Margrét, sem er danshöfundur verksins, segir þau Ragnar hafa aðlagað það porti Hafnarhússins fyrir Gjörningaþoku.

„Þetta er eiginlega svona gjörningaútgáfa af verkinu. Sex dansarar í stað átta og svolítið berstrípuð útgáfa að því leyti. Það verða engin ljós og engin tækni,“ segir Margrét.

Að sögn Ragnars lá ákvörðunin um að loka sýningunni í Moskvu beint við þegar Rússar réðust inn í Úkraínu þann 24. febrúar síðastliðinn.

„Þetta safn var bara svona eins og partur af þessu gamla Rússlandi sem var til fyrir 24. febrúar. Þarna voru tengsl við vestræna list og menningu og það bara endaði allt 24. febrúar. Þetta var eiginlega engin spurning, við báðum þau bara vinsamlegast um að slaufa öllu saman.“

Raggi og Magga segjast hafa lagt upp með að semja verk um ekkert.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ballett um ekkert

Spurð um hvernig það hafi komið til að þau Ragnar ákváðu að sýna No Tomorrow í Listasafni Reykjavíkur í staðinn fyrir í Moskvu eins og til stóð segir Margrét:

„Ég átti að vera með gjörning í portinu. En þegar þessi staða kom upp þá bara lá svona beint við að sýna bara No Tomorrow í staðinn. Dansararnir voru náttúrlega búnir að vera að æfa verkið og við erum að sýna það áfram í Þýskalandi í vor og meira í ágúst.“

No Tomorrow er ballett fyrir sex til átta dansara og jafnmarga gítara. Tónlist verksins er eftir bandaríska tónskáldið og rokkarann Bryce Dessner sem er gítarleikari hljómsveitarinnar The National og samstarfsmaður Ragnars Kjartanssonar til langs tíma. Margrét og Ragnar eru sammála um að verkið sé ívið pólitískt jafnvel þótt það fjalli í raun um ekkert.

„Við Margrét og Bryce Dessner vorum að leika okkur með hugmyndina um nánast ekkert. Þetta verk var gert þegar rússneska dystópían var svona að koma yfir okkur öll og Donald Trump var orðinn forseti,“ segir Ragnar.

„Við vorum einmitt að semja verkið þegar hann var að sverja embættiseið og það hafði alveg mjög lúmsk, eða ekkert sérstaklega lúmsk, áhrif á vinnuna. Það sem er að gerast núna er eitthvað sem maður hélt þá að væri að fara að gerast eftir viku,“ segir Margrét.

Ekki hægt að gera ópólitíska list

Spurður um hvert hlutverk listarinnar sé á tímum hörmunga og stríðs eins og nú eru runnir upp í Evrópu segir Ragnar:

„Það er náttúrlega bara eins og með allt að samhengi hlutanna breytist þegar heimurinn breytist. Samhengi allra verka í rauninni, hlutirnir magnast dálítið upp. Þetta er mjög flókið, hvert er hlutverk listarinnar. Því að listin er svo rosalega valdalaus og líka svo valdamikil.“

Þannig að jafnvel verk eins og No Tomorrow, áferðarfagurt og abstrakt verk, það kemst ekkert hjá því að verða pólitískt í ljósi ástandsins í heiminum?

„Nei, og ég held að það sé ekki hægt að gera neina list sem er ekki pólitísk. Það að eitthvað sé ekki pólitískt er pólitískt,“ segir Ragnar og Margrét tekur undir það.

„Frá mínum stað er No Tomorrow held ég bara pólitískasta verk sem ég hef gert,“ segir hún.

Hátíðin Gjörningaþoka hefst í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi í dag. No Tomorrow er lokaverk hátíðinnar og verður flutt á sunnudaginn klukkan 16. Flytjendur verksins eru þær Aðal­heiður Hall­dórs­dóttir, Anaïs Barthe, Elín Sig­ný Ragnars­dóttir, Halla Þórðar­dóttir, Inga Maren Rúnars­dóttir og Lovísa Ósk Gunnars­dóttir.