Íris Huld var spurð hvað fólk ætti að hafa í huga þegar það ætli að hefja fjallgöngur en hafi enga slíka reynslu. Hún svarar að fólk þurfi að velja sér fjöll við hæfi og passa að fara ekki of geyst af stað, bæði hvað varðar lengd göngunnar og hraða á yfirferð. „Síðan þarf að klæða sig eftir veðri þar sem hægt er að eiga von á ýmsum veðurafbrigðum hér á landi í einni og sömu göngunni,“ segir hún.

Íris Huld segir að best sé að byrja fjallgöngur í kringum höfuðborgarsvæðið, fyrir þá sem búa í nágrenni Reykjavíkur. „Ég hef kosið Úlfarsfellið og fellin í kringum Mosó, til dæmis Helgafell, Mosfell, Grímmannsfell. Þessi fell eru tilvalin fyrir byrjendur og lengra komna, ef fólk vill taka stuttar röskar göngur eða utanvegahlaup. Það fer síðan eftir líkamlegu ástandi hvers og eins hvort hann þurfi að taka göngutúra utandyra fyrst áður en ráðist er á fjöllin,“ segir hún. „Í byrjun er nóg að vera í góðum skóm með grófum botni, eiga góðan hlífðarfatnað, vatnsbrúsa og léttan göngubakpoka. Stundum skellir maður sér út í göngu bara til að njóta, hreinsa hugann og hreyfa kroppinn. Ef stefnan er tekin á lengri göngur, sem fela í sér aukið erfiðleikastig eða undirbúning, er gott að setja sér markmið með reglulegum göngum til þess að auka þrek og þol,“ segir Íris og bendir á að fjallganga geti tekið á og ef fólk sé að glíma við verki í stoðkerfi sé mikilvægt að huga að líkamsbeitingu, hlusta á líkamann og sinna sér vel með réttum teygjum og styrktaræfingum. Upplifunin þarf að vera góð til þess að fólk geti notið fjallgöngunnar í botn.“

Úlfarsfell er vinsælt byrjendafjall sem flestir geta gengið og notið. Mynd/Lára Sigurðardóttir

Íris er gift Einar Carli, einum af eigendum líkamsræktarstöðvarinnar Primal Iceland í Faxafeni, þar sem hún starfar sem þjálfari. Þau eiga tvo syni og er fjölskyldan dugleg að fara saman í göngur. Íris segir að hún geti ekki svarað fyrir aðra, hvað það sé sem fólk heillist af í fjallgöngu, en hjá henni er útivist og hreyfing mikilvæg og nándin við hina fallegu íslensku náttúru. Ég heillaðist af henni þegar ég fór að ganga reglulega. Maður fær kraft úr náttúrunni sem erfitt er að lýsa,“ segir hún. „Þegar fólk fer að stunda reglulegar fjallgöngur ætti árangurinn og munur á þreki ekki að láta á sér standa. Ég hóf í vor að tileinka mér neföndun í léttum fjallgöngum og hef með þeirri þjálfun fundið gríðarlegan mun á þoli, auk þess sem svefninn er betri eftir útivist og hreyfingu.“

Íris bendir á að ekki sé verra að hafa göngufélaga. „Góður göngufélagi gerir gæfumuninn. Göngufélagar veita félagsskap og hvatningu á erfiðu köflunum, auk þess sem visst öryggi felst í því að ganga með öðrum eða í hóp. Það er ekki langt síðan ég byrjaði fjallgöngur, svona þrjú til fjögur ár. Í dag geng ég ýmist með vinkonum mínum eða fjölskyldunni. Við hjónin erum bæði heilluð af útivistinni og nýtum hvert tækifæri sem gefst til að fara á fjöll með sonum okkar. Ég á ekkert sérstakt uppáhaldsfjall, vil fara sem víðast og upplifa eitthvað nýtt,“ segir hún.

Þegar hún er spurð hvort breyta þurfi mataræðinu þegar fólk byrjar fjallgöngur, segir hún að það fari eftir lengd göngunnar. „Ef farið er í styttri göngu er að mínu mati óþarfi að nesta sig eða næra eitthvað öðruvísi en maður gerir fyrir aðra líkamsrækt/æfingar, en í lengri göngum er mikilvægt að vera með næringarríkt nesti og vatn,“ segir hún.

Íris segist ekki enn hafa farið í fjallgöngur erlendis, en slík ferð sé klárlega á „bucket“ listanum og þá með fjölskyldunni.