Fermingardrengurinn Rúnar Þór Hafþórsson er afar spenntur fyrir ferð sem hann fer til Liverpool í næsta mánuði, ekki síður en fyrir fermingunni sjálfri. Rúnar verður á meðal áhorfenda á leik Liverpool og Tottenham, sem mætast á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, en Liverpool er í miklu uppáhaldi hjá honum. Sannkallaður stórleikur verður þar á ferðinni en bæði lið eru í baráttunni um að komast í Meistaradeildina á næsta keppnistímabili. Tottenham er sem stendur í 4. sæti deildarinnar og er sex stigum á undan Liverpool sem er í 6. sætinu en Liverpool á leik til góða. Fótboltaferðin er fermingargjöf Rúnars Þórs frá foreldrunum en móðir hans, Guðrún Svavarsdóttir, mun verða með syni sínum á Anfield.

„Það var draumur hans að fá ferð á leik með Liverpool á Anfield í fermingargjöf. Hann er gallharður stuðningsmaður Liverpool eins og öll fjölskyldan og það kom ekkert annað til greina hjá honum en að fá svona ferð í fermingargjöf,“ segir Guðrún.

Langar að fara aftur

Spurður hvort það hafi alltaf verið óskin að fá fótboltaferð til Anfield í fermingargjöf frá mömmu og pabba segir Rúnar Þór:

„Já, ég óskaði eftir því að fá ferð á heimaleik með Liverpool í fermingargjöf. Það var mikil upplifun þegar ég fór í fyrsta sinn til Anfield og mig langar svo sannarlega að fara aftur,“ segir Rúnar.

Rúnar sá sína menn leggja West Ham að velli 1:0 á Anfield í mars í fyrra þar sem Sadio Mané skoraði sigurmarkið. Mané er nú horfinn á braut og spilar með þýska meistaraliðinu Bayern München. Í þessari ferð í fyrra segist Rúnar hafa hitt Kólumbíumanninn Luiz Diaz, leikmann Liverpool, þegar hann fór út að borða og það hafi verið mjög skemmtilegt.

Ert þú að æfa fótbolta?

„Já, ég er búinn að æfa fótbolta með FH síðan ég var fjögurra ára gamall. Stefnan er að verða atvinnumaður og spila fyrir landsliðið,“ segir Rúnar og þegar hann er spurður hvað hann langar til að verða þegar hann verður stór er hann fljótur að svara: „Mig langar að verða atvinnumaður í fótbolta.“

Smáréttir á boðstólum

Rúnar er spenntur fyrir stóra deginum en á morgun klukkan 11 verður hann fermdur.

Hefur undirbúningurinn fyrir ferminguna gengið vel?

„Já, hann hefur gengið mjög vel. Mamma hefur að mestu leyti séð um undirbúninginn með hjálp frá pabba, ömmu og afa. Fermingarveislan verður haldin heima hjá ömmu og afa og verða smáréttir á boðstólum. Ég fermist í Ástjarnarkirkju og ég hef verið í fermingarfræðslu þar hjá Bolla og Nóa sem hefur gengið mjög vel,“ segir Rúnar Þór.

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023

Rúnar Þór á Anfiled í fyrra þar sem hann sá sína menn í Liverpool vinna sigur á West Ham.
Bræðurnir Rúnar Þór og Dagur Þór ásamt Luiz Diaz. leikmanni Liverpool, á Anfield í fyrra.