Menning

Fóður fyrir hugann

Haukur Ingvarsson fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Vistarverur. Ákvað að temja textann ekki um of. Ljóð í minningu Guðmundar Páls Ólafssonar.

„Ég lét allt flakka, skrifaði þangað til ég var orðinn tómur,“ segir Haukur. Fréttablaðið/Ernir

Haukur Ingvarsson hlaut á dögunum verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína Vistarverur. Haukur er enginn nýliði á ritvellinum en hann hefur áður sent frá sér ljóðabókina Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga (2005) og skáldsöguna Nóvember 1976 (2011), auk fræðibókarinnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009).

Haukur segir verðlaun Tómasar Guðmundssonar skipta sig miklu máli. „Þetta er mikilvæg viðurkenning. Þessi verðlaun hafa verið að vaxa mjög síðustu ár og hafa gert heilmikið fyrir þá höfunda sem hafa fengið þau.“ Þegar hann er spurður hvort hann hafi átt von á að bera sigur úr býtum segir hann: „Ég held að ég sé ekki að grobba um of en ég var mjög ánægður með handritið og hafði trú á því að ég gæti unnið um leið og ég gerði mér grein fyrir því að margir aðrir væru vel að verðlaununum komnir. Ég var úti í Danmörku þegar dómnefndin hringdi til að láta mig vita að ég hefði unnið. Ég var á hjóli og stoppaði, en ef ég hefði haldið áfram að hjóla og verið í símanum um leið hefði ég örugglega keyrt úti í síki.“

Þurfum að færa fórnir

Spurður um yrkisefni bókarinnar segir Haukur: „Í ræðu við afhendingu verðlaunanna minntist ég á að þegar ég var lítill og það var rigning þá hafði systir mín stundum ofan af fyrir mér með því að fara í leikinn: Hvað myndirðu taka með þér á eyðieyju? Þegar ég fór að vinna að þessari bók þá fór þessi hugsun hvað eftir annað að skjóta upp kollinum: Hvað myndirðu taka með þér á eyðieyju? Hugsunin kjarnar mjög vel það sem við stöndum frammi fyrir vegna þess að við getum ekki haldið áfram að lifa því lífi sem við lifum óbreyttu án þess að það hafi mjög varanleg áhrif á jörðina og lífið á henni. Við munum þurfa að færa einhverjar fórnir. Þetta er ein nálgun mín í yrkisefnum. En það er ekki eins og þetta sé einvíð bók sem fjalli bara um þetta eina málefni. Þarna er líka að finna tilfinningar, minningar og fyrirbæri sem mér þykir vænt um. Ætli það megi ekki segja að þarna sé farangur sem ég gat pakkað með mér í lítið kver.“

Lét allt flakka

Húmor leynist víða í bókinni. „Húmor er beitt vopn og hluti af lífsbjargarviðleitni og þegar ég stóð frammi fyrir þeim yrkisefnum sem ég er að glíma við í bókinni þá kom í mig undarlegur galsi,“ segir Haukur. Galsinn skilar sér einnig í áberandi afslöppuðum tóni og um hann segir Haukur: „Ég sleppti algjörlega fram af mér beislinu og spann mikið. Ég lét allt flakka, skrifaði þangað til ég var orðinn tómur. Svo vann ég talsvert í textanum eftir ár, stytti og reyndi að hefla málfar og sníða af allan óþarfa. Ég tók samt meðvitaða ákvörðun um að temja textann ekki um of.

Það eru ýmsir þræðir og myndmál sem ganga í gegnum alla bókina. Ég vil að þarna sé eitthvert fóður fyrir hugann svo fólk geti lesið bókina oftar en einu sinni. Það skipti mig líka máli að bókin væri aðgengileg. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja að ég vil að fólk lesi það sem ég skrifa og fái eitthvað út úr því. Mér fannst þessi spjallkenndi tónn, sem einkennir verkið, líklegur til að taka vel á móti lesandanum.“

Í minningu Guðmundar Páls

Haukur segir öll ljóð bókarinnar ort á undanförnum tveimur árum ef frá eru talin fyrstu ljóðin tvö í bálknum „Allt sekkur“. Þau segir hann eiga rætur að rekja til heimsóknar í Kringilsárrana sem hann fór með góðum vinum sumarið sem framkvæmdir hófust við Kárahnjúkavirkjun. „Við vorum á göngu í þoku og skyndilega birtist hópur af hreindýrum sem leið einhvern veginn fram hjá. Þessi reynsla sat í mér en ég festi hana ekki á blað fyrr en Guðmundur Páll Ólafsson, rithöfundur og náttúrufræðingur, féll frá árið 2012. Ég ber djúpa virðingu fyrir ævistarfi hans og þessi tvö ljóð voru ort í minningu hans. Mér þætti vænt um að fá að halda því til haga hér. Hreindýrin eru ein af mörgum vistarverum sem koma við sögu þessarar bókar en ég ferðast líka um borgarlandslagið og undraheima hafdjúpanna svo eitthvað sé talið.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Hall­grímur kláraði 60 kíló á átta vikum

Menning

Það flaug engill yfir safnið

Menning

​Þór­dís nýtt Leik­skáld Borgar­leik­hússins

Auglýsing

Nýjast

Garðar kokkur brauðfæðir lávarðadeildina

335 milljóna endur­greiðsla úr ríkis­sjóði til Ó­færðar 2

Kominn tími á breytingar

Doktor.is: Normal Disorder?

Margir hugsan­lega á ein­hverfurófi sem þurfa enga hjálp

Forréttindi fyrir nýjan höfund

Auglýsing