„Maður á að fara varlega í að kenna fimm ára gömlum drengjum á Stiga-sleða,“ segir fjölmiðlamaðurinn Sigmar Guðmundsson í samtali við Fréttablaðið af slysadeild Landspítalans. Hann fótbrotnaði í dag þegar hann renndi sér á sleða niður stutta brekku á Miklatúni.

Júlíana Einarsdóttir, unnusta Sigmars, náði myndbandi af atvikinu. Sigmar baðst hins vegar undan því að myndbandið yrði birt með fréttinni. „Þetta er sennilega það aumingjalegasta sem hefur komið fyrir mig á lífsleiðinni. Mjög líklega. Farturinn er óskaplega lítill, stökkbrettið er pínulítið og byltan ótrúlega aumingjaleg,“ segir Sigmar um málsatvik.

Það var fótleggurinn á Sigmari sem lét undan við salíbununa. Hann verður að sögn á hækjum í sex vikur.