Leikarinn og rit­höfundurinn góð­kunni Gunnar Helga­son ýtir nýju lestrar­á­taki úr vör í dag í til­efni EM kvenna í knatt­spyrnu. Á­takið, sem er fyrir krakka á aldrinum 6-14 ára, ber heitið Tími til að lesa og er tví­þætt. Í fyrsta lagi er lestrar­á­skorunin Lesum leikinn.

„Þá gera börn og for­ráða­fólk samning sem fólk getur náð í á timitiladlesa.is. Þar lofar barnið að lesa á­kveðið mikið fyrir hvern leik sem ís­lenska kvenna­lands­liðið spilar á EM, hvert mark sem er skorað og hvert víti sem er varið. Þau sem gera samninginn á­kveða hver verð­launin eru, sem eiga náttúr­lega bara að vera ó­keypis, fjöl­skyldu­stund, knús, bíó- eða spila­kvöld,“ segir Gunnar.

Í öðru lagi er sögu­keppnin Skrifum söguna, þar er börnum frjálst að senda inn sögu sem inni­heldur á ein­hvern hátt orðið bolta.

„Það geta allir sem eru 6-14 ára sent inn sögu á gunni­helga@timitil­adlesa.is. Það getur verið hvernig saga sem er, hún þarf ekkert að vera löng. Það getur verið ljóð, mynda­saga, leik­rit, sjón­varps­hand­rit, þau ráða því al­gjör­lega. Það eru engin skil­yrði með söguna nema að það verður að vera ein­hvers konar bolti, það getur verið brenni­bolti, körfu­bolti, fim­leika­bolti eða fót­bolti,“ segir Gunnar.

Stærstu verð­laun sem um getur

Að sögn Gunnars þurfa krakkar að senda inn sögurnar í síðasta lagi 18. júlí svo hann hafi tíma til að lesa þær allar og endi­lega fyrr. Verð­launin eru svo ekki af verri endanum en sigur­vegari sögu­keppninnar fær ferð fyrir tvo á næsta úti­leik kvenna­lands­liðsins í knatt­spyrnu í haust.

„Ég vel bestu söguna og sigur­vegarinn fær ferð til út­landa. Þetta eru stærstu verð­laun sem um getur í svona smá­sagna­keppni barna!“ segir Gunnar.

Lestrar­á­skorunin stendur yfir svo lengi sem stelpurnar okkar eru með í leik á EM í knatt­spyrnu. Keppnin hefst á Eng­landi í þessari viku en Ís­land keppir sinn fyrsta leik næsta sunnu­dag á móti Belgíu.

„Við vonum að það standi sem lengst. Helst að við förum bara alla leið, við trúum því. Ég er alla vega sjálfur rosa bjart­sýnn því hópurinn hefur bara breikkað, batnað og stækkað,“ segir Gunnar og bætir því við að það reynist honum hægara sagt en gert að halda væntingum í hófi.

Þegar ég var ungur maður í list­námi þá þótti ekki fínt að tala um fót­bolta eða hafa á­huga á fót­bolta.

Bók­mennta­um­ræður á vellinum

Eitt sinn var það þannig að krakkar sem höfðu mikinn á­huga á fót­bolta höfðu ekki mikinn á­huga á að lesa og öfugt. Hefur orðið breyting þar á?

„Þegar ég var ungur maður í list­námi þá þótti ekki fínt að tala um fót­bolta eða hafa á­huga á fót­bolta. Það voru mjög erfið fjögur ár þegar ég þurfti að þykjast hafa ekki á­huga á fót­bolta í Leik­listar­skólanum. En mér finnst það hafa breyst mikið undan­farið að lista­fólk segi kinn­roða­laust að það hafi á­huga á fót­bolta.“

Gunnar segir fót­bolta vera mjög stóran part af lífi margra en hann hefur alla tíð verið bæði mikill lestrar­hestur og á­huga­maður um knatt­spyrnu.

„Ég finn það bara með mínum fót­bolta­sögum, eftir að þær fóru að koma út, þá lendi ég oft í bók­mennta­um­ræðum á vellinum við börn. Það eru svona fót­bolta­krakkar sem koma á völlinn að horfa á leiki, að þau skuli hafa lesið allar þessar bækur og vilji ræða þær er ekkert minna en stór­kost­legt fyrir mig.“