Fótboltaparið Fjalar Þorgeirsson, markmannsþjálfari FH og Málfríður Erna Sigurðardóttir, landsliðskempa og leikmaður Stjörnunnar, hafa sett íbúð sína í Stigahlíð á sölu. Um er að ræða fallega og bjarta íbúð með sérinngangi á fyrstu hæð og bílskúr.
Íbúðin er sex herbergja og 202,1 fermetri að stærð. Húsið er teiknað af Kjartani Sveinssyni arkitekt og hafa Fjalar og Málfríður augljóslega hugsað vel um íbúðina. Eignin er mikið endurnýjuð, bæði að innan og utan. Fótboltaparið vill tæpar hundrað milljónir fyrir slotið.
Íbúðin skiptist í stóra, opna, bjarta stofu og borðstofu með góðri tengingu við fallegt og stórt eldhús, sérþvottahús innaf eldhúsi. Þar er að finna fjögur svefnherbergi, rúmgott baðherbergi með baði og sturtu. Þá blasir við stórglæsileg forstofa, og þarna er að finna gestaklósett, rúmgóðan bílskúr og að sjálfsögðu er geymsla í kjallara.
Þá státar fótboltaparið af stórum svölum. Þær snúa til suðurs og vesturs. Íbúðin er á frábærum stað, vinsælum í Hlíðunum. Skólar á öllum stigum í göngufjarlægð, íþróttasvæði Vals, ásamt fjölbreyttri verslun og þjónustu í Suðurveri og Kringlunni.












