Leikstjórinn Valdimar Jóhannsson uppskar standandi lófatak að lokinni heimsfrumsýningu kvikmyndarinnar Dýrsins á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes á þriðjudaginn.

„Við erum bara mjög hamingjusöm og finnst þetta vera mjög mikill heiður að hafa verið boðið hingað. Sérstaklega af því að í ár voru svo margar myndir, þannig að þetta var óvenju hörð keppni í ár,“ sagði Valdimar þegar Fréttablaðið náði tali af honum í Cannes, þar sem Dýrið keppir til verðlauna í nýliðaflokknum Un certain regard.

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir hvað það komu margir til að vera með okkur á frumsýningunni. Ég held að þetta séu um tuttugu manns,“ heldur Valdimar áfram, en drjúgur hluti tökuliðsins fylgdi Dýrinu á hátíðina.

Um tuttugu manns fylgja Dýrinu í Cannes og hér stilla Hilmir Snær Guðnason, Noomi Rapace og Björn Hlynur Haraldsson sér upp fyrir ljósmyndara heimspressunnar, ásamt Valdimari leikstjóra Jóhannssyni. Fréttablaðið/Getty

„Andinn í hópnum er mjög góður og þetta er rosaleg stemning. Það eru allir líka svo hamingjusamir að komast í sólina og geta farið í sjóinn. Þetta er yndislegur staður,“ segir Valdimar um Cannes, þennan smábæ við Miðjarðarhafsströnd Frakklands sem þekktastur er fyrir þessa mikilvægustu kvikmyndahátíð heims.

Sköpunarsaga Dýrsins

„Hugmyndin kviknaði alveg fyrir mörgum árum,“ segir Valdimar, um langa sköpunarsögu Dýrsins sem hófst með skissubók þar sem hann lék sér með mjög óljósa sögu og stemningu sem hann sá fyrir sér að gæti orðið að kvikmynd. „Ég var bara að safna saman alls konar myndum og teikna alls konar teikningar sem mynduðu einhvern veginn mjög óljósa sögu.

Síðan kynntu framleiðendurnir, Hrönn og Sara, mig fyrir Sjón og við fengum okkur kaffi,“ segir Valdimar um eiginkonu sína, Hrönn Kristinsdóttur, og stjúpdótturina, Söru Massim, sem deila sviðsljósinu með honum á hátíðinni sem framleiðendur Dýrsins.

„Og ég sýndi honum þessa bók og honum leist mjög vel á þetta, þannig að eftir það fórum við bara að hittast einu sinni eða tvisvar í hverri viku í nokkur ár.“

Valdimar segir að út úr þessum fundum hans og skáldsins hafi að lokum komið svokallað „treatment“, eða drög að kvikmynd, sem þeir hafi unnið með þangað til framleiðendurnir voru orðnir hamingjusamir, eins og hann orðar það.

„Þá tók Sjón við og skrifaði handritið og þetta var mjög þægilegt ferli vegna þess að við vorum ekkert að flýta okkur og langaði bara öll til að gera bíómynd sem okkur sjálf langaði mikið til að sjá.“

Hryllilega mannleg saga

Og niðurstaðan var Dýrið, eða Lamb, og umsagnir fjölmiðla sem fylgjast með hátíðinni benda eindregið til þess að hópnum hafi tekist að gera kvikmynd sem miklu fleiri en þau ein vilji sjá.

Þannig hefur Dýrinu til dæmis verið lýst sem fantasíuhryllingi, sem sé þó miklu meira en bara hrollur þar sem hún laði um leið fram mannlegar tilfinningar og hlýju.

Þá er myndinni spáð mikilli lýðhylli í krafti frumlegrar sögunnar og hæfileika bæði leikstjórans og leikaranna. „Já, við erum búin að hitta mjög margt fólk og fólk hefur komið til okkar og lýst ánægju sinni og það gleður okkur mjög,“ segir Valdimar um viðbrögðin sem hann hefur fengið á hátíðinni.

Hilmir Snær og Noomi Rapace leika sauðfjárbændur sem þrátt fyrir bjartar vonir eiga ekki beinlínis von á góðu í Dýrinu.

Dýrið fjallar um sauðfjárbændurna Maríu, sem sænska stórstjarnan Noomi Rapace leikur, og Ingvar, sem Hilmir Snær Guðnason leikur. Þau búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera kemur þar í heiminn ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, en þessi ákvörðun þeirra á eftir að hafa afdrifaríkar og skelfilegar afleiðingar.

Feiminn á fund Noomi

„Þegar Noomi var búin að lesa handritið vildi hún fá að hitta okkur og ég fór til London í heimsókn og ég viðurkenni það alveg að ég var frekar feiminn þegar við hittumst fyrst. Þetta var síðan bara allt mjög fínt,“ segir Valdimar og bætir aðspurður við að hann og hans fólk hafi snemma í ferlinu séð Noomi fyrir sér sem Maríu.

„Já, við gerðum það en við vissum alveg að það væri ekkert sjálfgefið, af því að þetta væri náttúrlega lítil mynd á Íslandi og svo bara líka hvort hún hefði tíma og áhuga. En hún ákvað að gera þetta og við erum ótrúlega þakklát fyrir það að hún skyldi ákveða að vera með okkur í þessari mynd.

Bæði vegna þess að það er svo frábært að vinna með henni og hún kom líka einhvern veginn með svo mikið inn í myndina. Það er bara alger heiður að fá að vinna með bæði Noomi og Hilmi Snæ að sinni fyrstu mynd,“ segir Valdimar.

Óskarinn í fjarska

Kvikmyndabransabiblíurnar, Variety og The Hollywood Reporter, eru meðal þeirra sem hafa farið mjög fögrum orðum um Dýrið og það síðarnefnda telur myndina upp með þeim myndum á Cannes sem megi teljast líklegar til þess að blanda sér í kapphlaupið um Óskarsverðlaunin.

Noomi Rapace í hlutverki Maríu í hjartnæmri hryllingsstemningu í Dýrinu. Mynd/Lilja Jóns

Valdimar segist þó ekkert vera farinn að velta þeim möguleika fyrir sér. „Nei, ég er ekkert byrjaður að hugsa svo langt, en mér finnst bara geðveikt gaman að hún skuli vera nefnd meðal þessara mynda. Mér finnst það bara ótrúlegt.“

Valdimar gerir ráð fyrir því að einhver ferðalög séu fram undan með Dýrið, auk þess sem hann er þegar byrjaður að huga að næsta verkefni. „Við erum allavega búin að fá boð á mjög margar hátíðir núna, þannig að það verða vonandi einhver ferðalög. Maður þarf að njóta þess aðeins að vera boðinn eitthvert og komast í ferðalög,“ segir Valdimar.

Stress á heimavelli

Síðan þarf að sjálfsögðu að sýna myndina á Íslandi en frumsýning er áætluð í byrjun september. „Það er eiginlega það sem maður er einhvern veginn stressaðastur fyrir, að sýna fólkinu sínu þessa mynd. Og kannski eiginlega líka bara Íslendingum, vegna þess að maður veit ekki alveg hvernig þeir eiga eftir að taka þessu.“

Sé tekið mið af þeim móttökum sem Dýrið hefur fengið í Cannes er þó varla miklu að kvíða og Valdimar og Sjón eru þegar byrjaðir að huga að frekara samstarfi.

„Við Sjón erum aðeins byrjaðir en við erum komnir það stutt að maður getur ekkert talað um það og veit ekkert hvað það fer langt en við erum allavega byrjaðir,“ segir Valdimar um áform þeirra Sjóns um að halda gjöfulu samstarfi sínu áfram.