Árni Oddur Þórðar­son, for­stjóri Marel, er nýr eig­andi að glæsi­legu ein­býlis­húsi að Sól­valla­götu 10 en húsið var áður í eigu Símons Kær­nested. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins en upp­sett verð hússins voru 350 milljónir.

Húsið hefur verið á sölu um nokkurt skeið en um er að ræða þriggja hæða hús, 416 fer­metra á 792,7 fer­metra lóð. Inn­byrðis eru tvær stofur, sex svefn­her­bergi, auk fata­her­bergis, þrennra bað­her­bergja, glæsi­legu eld­húsi, þvotta­húsi og bíl­skúr. Þá er ríf­leg loft­hæð á öllum hæðum og bíla­stæði á lóð fyrir sex bíla.

Ekki er ljóst hve mikið greitt er fyrir fast­eignina nú en þegar húsið var selt árið 2005 fór það á 111 milljónir króna. Haldið hefur verið í upp­runa­legt út­lit hússins að utan sem innan og er það stað­sett í hjarta Vestur­bæjarins.

Sam­ræmi er í efnis­vali á inn­réttingum í öllu húsinu og þá er gólf­hiti um ger­vallt húsið. Snjall­stýring er á hita og lýsingu auk öryggis­kerfis en Insta­bus hús­stjórnar­kerfi er í húsinu.