Bækur
Stund milli stríða. Saga landhelgismálsins, 1961-1971
Höfundur: Guðni Th. Jóhannesson
Útgefandi: Sögufélag
Fjöldi síðna: 518
Nú seinni árin hafa landsmenn fyrst og fremst haft kynni af Guðna Th. Jóhannessyni sem forseta Íslands, en ekki má gleyma því að Guðni er einnig okkar fremsti fræðimaður á sviði sagnfræðinnar.
Yfirleitt hefur verið talað um að áratugurinn frá árinu 1961-1971 hafi verið fremur kyrrlátur tími í landhelgismálum því að þá geisuðu ekki svokölluð þorskastríð. En rannsóknir Guðna leiða í ljós að oft gekk mikið á, á hinum svokölluðu millistríðsárum.
Höfundur þekkir hið flókna sögusvið landhelgismálsins greinilega mjög vel og hefur kafað djúpt í hlutina og lesandinn nýtur þess. Landhelgismálið var stórpólitískt mál hér innanlands og teygði einnig anga sína inn á svið alþjóðastjórnmálanna. Í gegnum alla bókina tekst Guðna að varpa nýju og áhugaverðu ljósi á það sem gerðist á þessu tíu ára tímabili í landhelgismálum, ekki síst bak við tjöldin.
Símar hleraðir
Símar voru til dæmis hleraðir vegna landhelgismálsins, þar á meðal hjá fjórum alþingismönnum árið 1961, á sama tíma og þingið fjallaði um landhelgissamninginn við Breta. Þetta hafi hins vegar orkað tvímælis, segir sagnfræðingurinn Guðni, og nálgist jafnvel pólitískar njósnir. Lög landsins heimiluðu ekki forvirkar aðgerðir af þessu tagi, nema að öryggi ríkisins krefðist þess eða um rannsókn mikilsverðs sakamáls væri að ræða, og engar vísbendingar voru um að þessir þingmenn ógnuðu öryggi ríkisins eða ætluðu sér að raska vinnufriði Alþingi.
Hleranirnar fóru fram í gömlu lögreglustöðinni við Pósthússtræti í strangleynilegri öryggisþjónustudeild embættisins, þar sem líklega aðeins þrír menn höfðu lyklavöld. Ekki var stuðst við segulbönd heldur var skrifað upp það sem mönnum fór á milli í símtölum. Þjóðviljinn og Alþýðusambandið og fleiri aðilar sem töldust til vinstri vængs stjórnmálanna máttu einnig sæta hlerunum.

Bókin ekki helgisaga
Árið 1971 varð landhelgismálið meðal annars til þess að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði alþingiskosningum vegna þess að kjósendur vildu sjá eindregnari afstöðu flokksins í landhelgismálinu, að áliti Guðna. Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalagi og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, en höfuðatriði málefnasamnings nýju ríkisstjórnarinnar var að færa landhelgina út í 50 mílur. Áhugavert er að lesa tilvitnun Guðna í dagbók Kristjáns Eldjárns, fyrirrennara hans á forsetastóli, frá þessum tíma þar sem fram kemur að forsetinn var fremur pirraður yfir því hversu ofboðslega Framsóknarflokknum lá á að fá stjórnarmyndunarumboðið.
Það er skemmst frá því að segja að forsetinn og fræðimaðurinn sýnir mikla meistaratakta í þessari bók. Hún er vel skrifuð og komið hreint til dyranna. Höfundur upplýsir lesandann til dæmis um það strax í upphafi að bókin sé ekki helgisaga þar sem gerðar séu miklar hetjur úr okkur Íslendingum í baráttunni við vonda útlendinga. Og fyrir vikið verður bókin svo miklu betri lesning.
Bók um þetta mál hefði auðveldlega getað orðið þurr og leiðinleg en hér er á ferðinni bók sem mann langar til að klára að lesa: eiginlega á köflum hálfgerð spennusaga.
Hálfgerð spennusaga
Bók um þetta mál hefði auðveldlega getað orðið þurr og leiðinleg en hér er á ferðinni bók sem mann langar til að klára að lesa: eiginlega á köflum hálfgerð spennusaga, auk þess að vera vandað sagnfræðirit. Bókin er hins vegar rúmlega 500 síður svo það er ekki svo einfalt að ætla sér að lesa hana alla í einni lotu.
Bókin er prýdd fjölda ljósmynda sem eru mjög vel valdar og upplýsa lesandann eftir því sem sögunni vindur fram. Bókin er fallegur prentgripur og athygli vekur að hún er ekki með hefðbundinni bókarkápu, en í stað kápu er upplýsingaspjald utan á bókinni, en þar er að finna yfirlit yfir megindrætti bókarinnar. Mér finnst fara vel á þessu.
Tvö atriði sem varða prentun og uppsetningu bókarinnar fóru svolítið fyrir brjóstið á mér. Það fyrra er að þar sem yfirskriftir með myndum komast ekki fyrir á myndasíðunni sjálfri er þeim komið fyrir langsum á spássíu næstu síðu, sem mér finnst ekki fara vel og erfitt að lesa og setja í samhengi. Hitt atriðið er að prentunin á þessum kjörgrip er ekki alveg upp á tíu. Sums staðar eru orð slitin í sundur sem er ljóður á svona öndvegisriti.
Niðurstaða: Forsetinn og fræðimaðurinn sýnir mikla meistaratakta í bók sem er vel skrifuð og góð lesning.