Þótt hún Sif Ívarsdóttir sé ekki nema rétt átta ára er hún staðráðin í því að bæta heiminn og leitaði á dögunum liðsinnis forseta Íslands þegar hún sendi honum svohljóðandi bréf:

„Hæ, ég heiti Sif og ég er 8 ára. Viltu vera svo vænn að segja öllu fólkinu í heiminum að hætta að borða dýr. Ég sá myndband þar sem dýrin voru meidd og ég er mjög leið og reið yfir því. Getur þú sagt öllum í sjónvarpinu að hætta að meiða dýr. Kveðja, Sif.“

Forsetinn svaraði Sif með fallegu bréfi sem hefur að sögn móður hennar, Sigríðar Karlsdóttur, heldur betur glatt Sif og fjölskylduna alla þótt ekki sé það á færi forsetans að uppfylla hina frómu ósk Sifjar.

„Ég get ekki skipað öllu fólki í heiminum að hætta að borða dýr en við skulum vinna saman að því að hvetja alla til þess að sýna dýrum virðingu og hugsa eins vel um þau og hægt er,“ segir Guðni meðal annars í bréfinu og hvetur Sif til dáða.

„Það er gott hjá þér að þykja vænt um dýr, kæra Sif. Ég vona og veit að þú munt halda því áfram eftir því sem árin færast yfir. Ég óska þér alls velfarnaðar í námi, leik og starfi.“

Áríðandi erindi við forsetann

„Hún sá myndband þar sem fólk fór illa með dýr. Hún var fokreið og hótaði að senda þessa menn í fangelsi,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið. „Hún fór á flug og spurði allskonar spurningar og bað mig síðan um að senda forsetanum strax póst um að segja heiminum að fara vel með dýr og hætta að meiða þau svona.“

Sigríður birti meðal annars mynd af svarbréfi forsetans í Facebook-hópnum Vegan Ísland en aðspurð segir hún fjölskylduna ekki vera vegan en neysluvenjur þeirra séu að breytast eftir að Sif fékk nóg af illri meðferð á dýrum.

„Fjölskyldan er ekki vegan, en eftir þetta ævintýri hennar höfum við ósjálfrátt minnkað kjötneyslu mjög mikið. Við kaupum öðruvísi inn og höfum þurft að hugsa hlutina upp á nýtt,“ segir Sigríður.

„Við erum hins vegar mjög umhverfisvæn og við berum ótakmarkaða virðingu fyrir náttúrunni; reynum að versla notað, hendum lítið sem engum mat og fylgjum ekki tískustraumum á nokkurn hátt sem stuðla að óþarfa bruðli.“

Þá segir hún Sif mjög meðvitaða um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni og dýrum. „Ætli þetta sé ekki bara eðlileg þróun hjá þessu hjartahreina barni,“ segir stolt móðirin.

Forseti með hjarta úr gulli

En hvernig var að fá svona huggulegt svarbréf frá forsetanum og er Sif sátt við svarið?

„Það var alveg dásamlegt,“ segir Sigríður. „Já, hún sagðist vera rosalega fegin að heyra að forsetinn er að vinna í málinu með henni, að bera virðingu fyrir dýrum. En í hennar huga hefur forsetinn allt valdið og jafnvel alheimsvald. Svo hún var mjög sátt.

Og við foreldrarnir erum mjög glöð og þetta sýnir okkur enn og aftur hversu lánsöm við erum með forseta. Guðni er sko forsetinn okkar. Hann hefur margsýnt og sannað að hann er með hjarta úr gulli og við tengjum við hans gildi.“