Stuðkagginn Purple Haze hefur vakið talsverða athygli í Facebook-hópnum Brask og brall þar sem hann er auglýstur til sölu á 2,8 milljónir króna. Þessi Dodge van, árgerð 1976, er enda svo glannalegur og frekur til fjörsins að hann höfðar tæpast til hlédrægra.

„Jah, ég veit nú ekki alveg hvað skal segja um bílinn,“ segir seljandinn Haraldur Bogi Sigsteinsson um bílinn sem verður kannski vart með orðum lýst og hann vill fá 2,8 milljónir fyrir.

Vígalegur framendinn er af Dodge Charger 1970.
Myndir/Halli

„Hann var fluttur hingað frá Kaliforníu 2019 þar sem þessi van-menning er nú aðeins líflegri en hérna heima,“ segir Haraldur og bætir við að kagginn hafi komið hingað hvítur og þannig hafi hann til dæmis birst í lokaatriði áramótaskaupsins 2019.

Aldurinn gerir þessa partírútu að fornbíl en mikið verið átt við hann áður en hann var fluttur hingað, ásamt öðrum bíl sem Haraldur segir að hafi verið enn flottari. Þó er bíllinn hlaðinn aukabúnaði á borð við þokulúður, tvöfalt loftnet og Bluetooth-hátalara. Auk þess sem vígalegur framendinn er af Dodge Charger 1970 að ógleymdri ómissandi sóllúgu.

Allt er vænt sem vel er grænt. Í það minnsta ef umgjörðin er fjólublá.
Mynd/Halli

Halli segir bílinn hafa verið alveg hráan að innan þegar hann tók við honum og gaf hugmyndafluginu lausan tauminn. Hann lét filma hann, eða „wrappa“ eins og það er kallað, fagurfjólubláan og nefndi hann Purple Haze eftir Hendrix laginu sígilda sem má teljast vægast sagt viðeigandi fyrir þetta fjólubláa mistur og senuþjóf.

Dodge-inn var enn hvítur þegar honum brá fyrir í lokalagi áramótaskaupsins 2019.

Þá hafi eitt hans fyrsta verk verið að smíða rúm aftur í og teppaleggja hann síðan í hólf og gólf í grænu. „Öllum góðum partí-vönum verður víst að fylgja kælir og bar og ég smíðaði þetta allt og klæddi svo eftir eigin höfði.“

Kagginn „húrrast“ að sögn vel áfram, er skoðaður 2024 og er eftir því sem næst verður kominn enn óseldur.