Kvikmyndaakademían hefur fordæmt hegðun Will Smith í garð Chris Rock á Óskarsverðlaunahátíðinni í gær og hefur hafið formlega rannsókn á atvikinu sem er á allra vörum.

Will Smith sló kynni hátíðarinnar Chris Rock vegna brandara hans um eiginkonu sína, Jada Pinkett Smith. Í kjölfarið vann Smith Óskarsverðlaun fyrir besta leik í kvikmyndinni King Richard.

Í yfirlýsingu akademíunnar segir að atvikið verði skoðað nánar í samræmi við lög Kaliforníufylkis.

Meðlimur akademíunnar sagði við BBC um málið að Will Smith hefði stolið sviðsljósinu frá kvöldi sem eigi að snúast um að fagna kvikmyndum. Þá hafi þetta alls ekki verið staður og stund fyrir ofbeldi, til að mynda hafi börn verið í salnum.