Andrými er yfirskrift sýningar í sýningarýminu Glettu í Hafnarhúsinu á Borgarfirði eystri. Þar sýna Anna Hallin, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Reynisdóttir og Olga Bergmann verk sín.

Andrými er önnur sýningin í þriggja sýninga röðinni Superstructure, sem ´uns skipuleggur á Borgarfirði eystri. Guðrún Benónýsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar, er eigandi ´uns, sem byrjaði sem bókverkaútgáfa en í framhaldi fór hún að þróa sýningarstefnu og hefur skipulagt sýningar á ýmsum stöðum, þar á meðal í Berlín þar sem hún hefur búið og starfað sem myndlistarmaður. „Þetta verkefni mitt er á sífelldri hreyfingu og hefur núna fundið sér stað á Borgarfirði eystri og þar sem ég bý á meðan sýningarnar standa yfir,“ segir hún.

Skúlptúr sem hugmynd

Fyrsta sýningin í Superstructure-röðinni var Endaleysa, samsýning listamannanna Elísabetar Brynhildardóttur, Eyglóar Harðardóttur og Guðrúnar Benónýsdóttur. Seinasta sýningin í röðinni verður í lok júlí, en þá sýna þau Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar og Esteban Rivera.

Listamennirnir fjórir sem eiga verk á sýningunni Andrými unnu þau sérstaklega fyrir sýningarýmið. Á sýningunni er að sjá skúlptúra og teikningar.

„Sýningarstaðurinn, Hafnarhúsið, er skúlptúr í sjálfu sér, mjög nútímaleg, steinsteypt bygging staðsett í fallegu sveitaumhverfi og hefur verið tilnefnt til arkitektúrverðlauna,“ segir Guðrún. „Þar má segja að form, ljós og efni móti heildrænan strúktúr. Áhersla þessarar sýningar er að skoða skúlptúrinn sem hugmynd um rými sem geta verið bæði efniskennd eða flöktandi, jafnvel andleg.“

Heimili og flug

Verk Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur, Út fyrir efnið, er unnið út frá hugmyndum um heimilið og þau efni sem mikilvægt er að taka með sér þegar flutt er á nýjan stað. Í skúlptúr hennar sameinast frumefnin í formi framandi borðspils á meðan þula les breytingar á leikreglum aftur og aftur í vídeói og hljóðverki. Loftmyndir, verk Önnu Hallin, er röð blekteikninga sem sækja innblástur í loftmyndir af flugmannvirkjum og hinum ýmsu tengingum á milli þeirra. Hún veltir fyrir sér brottflugi og aðflugi í loftrýminu og vegakerfinu sem mótað er í svörðinn.

Olga Bergmann sýnir samsettan skúlptúr úr einingum sem eru unnar úr fundnu efni, aðallega trjábolum sem hún hefur hirt í görðum þar sem tré hafa verið felld, eða fundið á haugunum eftir að trjánum hefur verið fleygt. Verkið, sem nefnist Paradox, fjallar um þá þversögn sem felst í manngerðri náttúru og skoðar skynjun okkar og skilning á náttúrunni og hvernig sú upplifun er klippt og skorin.

Verk Kristínar Reynisdóttur Endurvarp er samsetning sjö hringforma sem mynda súlu. Hringurinn, hin endalausa lína, mótar rými þar sem efnið endurvarpar umhverfinu til áhorfandans. Hugmyndin er frá upplifun listamannsins frá göngu sólríkan sumardag sumarið 2020 að Dyrfjöllum.

Sýningin stendur til 24. júní og er opin alla daga vikunnar á milli klukkan 12.00 og 16.00.

Verk Kristínar Reynisdóttur er samsetning sjö hringforma.