Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson ákváðu að hughreysta vonsvikinn Brynjar Níelsson sem datt út af þingi í morgunsárið eftir mikla spennu og óvissu með uppbótarsætin.
Ljósmyndari Fréttablaðsins var staddur í Útvarpshúsinu og smellti af mynd af formanninnum og forsætisráðherranum að hughreysta félaga sinn. Forystufólk flokkanna mætti í Silfrið í morgun til að ræða úrslit Alþingiskosninganna.
Vonbrigðin leyndu sér ekki á andliti fráfarandi þingmannsins sem sagði þó í morgun að hann hafi haft það á tilfinningunni að niðurstaðan gæti orðið á þessa leið.
Brynjar var meðal jöfnunarþingmanna í hringekjunni í nótt þegar síðustu tölur voru að berast. Hann hafði skipti við Lenyu Rún Taha Karim, þingmann Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður sem er nú yngsti þingmaðurinn sem hefur verið kjörinn á Alþingi.

Brynjar flakkaði fram og til baka í framboði. Eftir slæmt gengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu lýsti Brynjar yfir að hann hygðist hætta í stjórnmálum. Eftir hvatningu frá stuðningsmönnum sínum ákvað hann hins vegar að þiggja þriðja sæti á lista flokksins í næstu kosningum.
Það hefur því eflaust verið mikil vonbrigði fyrir Brynjar að ná ekki inn þrátt fyrir að flokkur hans hafi haldið striki sínu í kosningunum með 16 þingmenn.

