Daði Freyr og Árný Fjóla standa nú í ströngu við að undir­búa Euro­vision at­riði sitt fyrir lagið 10 Years sem þau munu flytja í Rotter­dam Ahoy höllinni í seinni undan­keppninni. Daði og Árný voru uppi á hótel­her­bergi þegar blaða­maður sló á þráðinn til þeirra.

„Við erum bara föst inni á hóteli. En okkur leiðist ekkert,“ segir Árný og Daði bætir við að þau séu fjór­tán manna hópur sem þekkist vel og geti því blandað geði sín á milli.

Euro­vision kepp­endurnir eru dreifðir yfir mörg hótel og eru um þrjú til fjögur lönd á hverju hóteli. Malta, Rúmenía og Pól­land eru á sama hóteli og ís­lenska sendi­nefndin en Daði segir þau ekki hittast mikið.

„Við sjáum þau í matnum og maður segir hæ á göngunum en ekki mikið meira,“ segir Daði og Árný bætir við að sumir kepp­endur túlki sótt­varnar­reglur tölu­vert frjálsar en þau.

„Maður heyrir út undan sér að sumir séu ekkert að fara jafn­mikið eftir sótt­varnar­reglum og við. Þannig við reynum bara að forðast þau,“ segir hún.

Mjög strangar sótt­varnar­reglur eru í gildi fyrir kepp­endur og starfs­menn Euro­vision en með­limir Gagna­magnsins þurfa að sæta sýna­töku á 48 klukku­stunda fresti og í hvert skipti sem þau stíga fæti inn í Ahoy höllina. Sam­kvæmt Árnýju hafa að­stand­endur keppninnar hannað sér­stakt CO­VID öndunar­próf en vegna þess hversu ó­á­reiðan­legt prófið er enda þau yfir­leitt á að fá pinnann góð­kunna.

„Við megum fara í göngu­túr en við megum í rauninni ekki stoppa neins staðar. Við megum ekki birta myndir af okkur úti til dæmis og við megum ekki fara í búð en við erum með tvo að­stoðar­menn sem skjótast fyrir okkur,“ segir Árný og bætir við að þau Daði séu mjög passa­söm.

Frá fyrstu æfingu Daða og Gagnamagnsins á Eurovision sviðinu í Rotterdam.
EBU/Andres Putting

Ís­landi spáð 5. sæti hjá veð­bönkum

Fyrsta æfing Gagna­magnsins fór fram í gær og voru bæði Daði og Árný mjög sátt við út­komuna. Þá virðast Euro­vision að­dá­endur víða um heim hafa kunnað að meta frammi­stöðu Gagna­magnsins en Ís­landi er nú spáð 5. sæti sam­kvæmt veð­bönkum og segist Daði fylgjast vel með þeim tölum.

„Þetta gekk mjög vel, mér alla­vega leið mjög vel á sviðinu. Við vorum bara vel undir­búin og höfðum séð myndir og mynd­bönd þannig þetta var ekkert svona yfir­þyrmandi,“ segir Árný.

Daði segir hópinn vera orðinn vel sjóaðan í Euro­vision undir­búningi en þetta er fjórða Euro­vision at­riði Gagna­magnsins ef með er talið ó­vænt gesta­at­riði þeirra í Söngva­keppni sjón­varpsins árið 2018. Þá segist hann hafa samið 10 Years sér­stak­lega fyrir sviðið í Ahoy höllinni og unnið jöfnum höndum að at­riðinu og laginu í sköpunar­ferlinu.

„Það voru mörg móment í at­riðinu sem ég var búinn að á­kveða áður en ég byrjaði að semja lagið. Þetta er sama svið og í fyrra og ég var bara með teikningar af sviðinu þegar ég samdi það,“ segir Daði.

Árný bætir við að senni­lega sé enginn annar keppandi sem hafi hannað at­riði sitt jafn ná­kvæm­lega út frá sviðinu eins og Daði.

Eins og við má búast er sér­hvert Euro­vision at­riði þaul­æft áður en að keppninni kemur og á æfingum koma stundum upp ýmis tækni­leg á­lita­mál sem taka þarf af­stöðu til. Sam­kvæmt Daða er þó að búið sé að fast­setja at­riði Gagna­magnsins í flestum megin­at­riðum.

„Hreyfingarnar hjá okkur eru í rauninni ekkert að fara að breytast bara kameru­hreyfingar. Það er reyndar eitt móment sem þarf að breyta hjá okkur út af tækni­legum at­riðum því það voru ekki mynda­vélar á þeim stöðum sem við vildum hafa þær,“ segir Daði.

EBU/Andres Putting

Ætla aftur í Euro­vision en ekki til að keppa

Ljóst er að Euro­vision fer fram með tölu­vert öðru sniði heldur en vana­lega en hjóna­kornin segjast þó ekkert vera svekkt yfir því að fá ekki að taka þátt í Euro­vision partíum.

„Við komum bara seinna. Árný er líka ó­létt og svona. Við komum aftur þegar við getum partíað al­menni­lega,“ segir Daði en bætir þó við að hann ætli sér ekki að keppa aftur sjálfur þó svo að hann viti ekki hvaða plön Árný hefur.

Eins og áður hefur komið fram eiga Daði og Árný von á sínu öðru barni en þau eiga fyrir dótturina Áróru Björg sem er tveggja ára. Fram kom á blaða­manna­fundi í dag að væntan­legur erfingi þeirra sé einnig stúlka og á­kváðu þau raunar nafnið á blaða­manna­fundinum en hún mun að sögn heita Lára. Að­spurður um hvort hann telji að Lára muni verða Euro­vision barn segist Daði ekki vera viss um að það.

„Nú veit ég ekki alveg hvað Euro­vision barn er. Ég hugsa ekki, ef að Euro­vision barn er það sem ég held að það sé,“ segir Daði.

„Við erum ekki að fara að skýra barnið í höfuðið á ein­hverjum keppanda eins og Conchita eða eitt­hvað svo­leiðis,“ bætir Árný við og hlær.

Dóttir þeirra Á­róra er fjarri góðu gamni en hún dvelur nú í sveitinni hjá ömmu sinni og afa og að­stoðar þau við sauð­burð. Árný og Daði sam­mælast um að það sé nokkuð erfitt að vera svo lengi í burtu frá Áróru en það sé þó auð­veldara en þau hafi búist við.

„Maður er bara í fullu prógrammi og við gætum engan veginn sinnt henni ef hún væri hérna, segir Árný og bætir við að þau for­eldrarnir hringi í Áróru dag­lega.

„Hún er núna alltaf að syngja Jaja Ding Dong,“ segir Daði en sam­kvæmt honum er á­breiða hans af því lagi í sér­legu upp­á­haldi hjá Áróru.

Daði og Árný munu flytja lagið 10 Years á­samt Gagna­magninu í Söngva­keppni Evrópskra Sjón­varps­stöðva laugar­daginn 22. maí næst­komandi. Keppnin verður sýnd í beinni á RÚV.

EBU/Andres Putting