Sex Evrópulönd hafa gerst sek um kosingasamsæri í Eurovision.

Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, segja að at­kvæðagreiðslur dóm­nefnda sex landa sem tóku þátt í seinni undankeppni Eurovision, Aserbaísjan, Georgíu, Svartfjallalands, Póllands, Rúmeníu og San Marínó, hafi verið ólögmætar.

Áhorfendur heima tóku eftir því að stigakynnar landanna sáust ekki á skjánum í aðalkeppninni þegar atkvæði dómnefnda þeirra voru tilkynnt. Þess í stað tilkynnti Martin Österdahl, framkvæmdastjóri Eurovision, um niðurstöðu atkvæðagreiðslu landanna.
Fréttablaðið/Getty images

Kusu atriði hvert annars

„Heiðarleiki í atkvæðagreiðslu dómnefnda og almennings er nauðsynlegur til að tryggja árangursríka hátíð. EBU eru skuldbundin sínum hagsmunaaðilum og sömuleiðis þeim 40 ríkissjónvarpsstöðvum sem taka þátt, að tryggja lögmæta útkomu í keppninni. Öll brot á reglum eru tekin alvarlega,“ segir í yfirlýsingu frá EBU.

Svo virðist sem löndin fimm hafi gert með sér samning um að kjósa atriði hvert annars.

Dómnefndir landanna sex settu atriði hvert annars í toppsæti líkt og má sjá á stigatöflunum hér fyrir neðan.

San Marínó setti Rúmeníu, Georgíu, Pólland, Svartfjallaland og Aserbaísjan í topp fimm sætin.
Mynd: EBU
Rúmenía setti San Marínó í fyrsta sæti, Pólland í annað, Svartfjallaland í þriðja, Aserbaísjan í fjórða og Georgíu í fimmta.
Mynd: EBU
Aserbaísjan var með Pólland, Georgíu, Rúmeníu, Svartfjallaland og San Marínó í topp fimm sætunum.
Mynd: EBU
Pólland setti San Marínó, Aserbaísjan, Rúmeníu, Svartfjallaland í topp fjögur og Georgíu í sjöunda sæti.
Mynd: EBU
Svartfjallaland setti Georgíu í fyrsta sæti, Aserbaísjan í þriðja, Rúmeníu í fjórða, San Marínó í fimmta og Pólland í sjötta sæti.
Mynd: EBU
Georgía setti hin löndin fimm í toppsætin.
Mynd: EBU

Fjögur þessara landa fengu 12 stig vegna þessa samsæris. „Atkvæðamynstur dómnefnda af slíkum mælikvarða á sér engin fordæmi,“ segir EBU.

Málið vakti athygli samstarfsaðila Eurovision, pan-European Voting Partner, eftir að löndin enduðu öll í neðstu sætum hjá hinum fimmtán löndunum sem kepptu og greiddu atkvæði í seinni undankeppninni.

EBU mun skipta út dómnefndum í löndunum sex og hefur rætt við fulltrúa sjónvarpsstöðva landanna um mikilvægi þess að rannsaka svindlið.

Felix er brugðið

Felix Bergsson, sem situr í stýrihópi Eurovision, segir að EBU hafi komist að þessu og stoppað svindlið og reiknað út stigin upp á nýtt. Áhorfendur heima tóku eftir því að stigakynnar fyrrnefndra landa sáust ekki á skjánum í aðalkeppninni þegar atkvæði dómnefnda þeirra voru tilkynnt. Þess í stað tilkynnti Martin Österdahl, framkvæmdastjóri Eurovision, um niðurstöðu atkvæðagreiðslu landanna. Rúmenar furðuðu sig einmitt á því hvers vegna atkvæðum þeirra var breytt í aðalkeppninni en nú vitum við ástæðuna.

„Atkvæðin voru reiknuð út upp á nýtt bæði í undanúrslitum og aðalkeppninni. Þess vegna fengu dómnefndirnar ekki að koma fram í aðalkeppninni. Þetta er með ólíkindum og er eitt stærsta kosningasvindl sem ég hef heyrt um í keppninni,“ segir Felix Bergsson í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er ansi stórt og manni er svolítið brugðið að þetta hafi getað gerst.“

Felix Bergsson er í stýrihópi Eurovision.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson