Eftir að hin fimmtán ára gamla Anna María Allawawi Sonde kláraði tveggja tíma prufuvakt hjá Grillmarkaðnum í gær kíkti hún á símann sinn og sá fjórtán ósvöruð símtöl frá foreldrum sínum og aragrúa af skilaboðum.

Þá hafði hún mætt á rangan stað í prufuvakt, átti í raun að mæta í Grillhúsið, og höfðu foreldrar hennar fengið símtal um að hún hefði aldrei mætt á staðinn. Óttuðust þau hið versta og hringdu meðal annars í lögregluna.

Anna María greinir frá þessum sprenghlægilega misskilningi á Twitter og ákvað Fréttablaðið að heyra í mægðunum.

„Við vorum auðvitað hrædd enda er það ekki líkt Önnu Maríu að mæta ekki á réttum tíma.“

„Við fengum símtal frá veitingastaðnum um klukkutíma eftir að hún átti að mæta. Við vorum auðvitað hrædd enda er það ekki líkt Önnu Maríu að mæta ekki á réttum tíma,“ segir Björg Sonde Þráinsdóttir, móðir Önnu Maríu. Hún segist geta hlegið að þessu núna þó hún hafi verið hrædd um dóttur sína.

Aðspurð segir Anna María að hún hafi að vísu verið smá hissa þegar hún mætti á Grillmarkaðinn því veitingastaðurinn passaði ekki alveg við lýsinguna á Grillhúsinu.

„Ég gekk inn og sagðist vera mætt á prufuvakt og ætti að tala við einhvern Gauja. Vaktstjórinn sagðist ekki kannast við þennan Gauja en sagði bara sjálfsagt að byrja þessa prufuvakt,“ segir Anna María og hlær.

Anna María slökkti á símanum og fór að bera á borð og hafði enga hugmynd að á sama tíma voru dauðhræddir foreldrar hennar að reyna að ná í hana án árangurs. Þá höfðu þau hringt í lögregluna sem ráðlagði þeim að hafa aftur samband ef hún fyndist ekki.

Anna María mætti bara á vitlausan stað.
Mynd: Aðsend

Farin að róta í ruslagámnum

„Þau sáu mig á kortinu á Snapchat og héldu að ég væri í einhverju húsasundi,“ útskýrir Anna María en líkt og margir vita þarf að ganga bak við veitingastaðinn Caruso til að komast að Grillmarkaðnum. Þegar Anna María var að ljúka vakt sinni kíkti hún á símann sinn og sá fjórtán ósvöruð símtöl og ótalmörg skilaboð.

„Þau voru bara farin að róta í ruslagáminum fyrir utan veitingastaðinn að leit að mér,“ segir Anna María og bætir Björg við: „Okkur datt í hug að þetta hefði verið misskilningur og til allrar lukku endaði sagan vel.“

Jú það var sannarlega góður endir því eftir að Anna María lauk sinni prufuvakt hjá Grillmarkaðnum fór hún einnig í atvinnuviðtal hjá Grillhúsinu og hefur nú fengið atvinnutilboð frá báðum veitingastöðum.