Gróa Másdóttir getur valið um marga titla þegar hún er spurð við hvað hún starfi. Hún er markþjálfi, jógakennari og leiðsögumaður og með gráðu í sagnfræði, fornleifafræði og viðskiptafræði. Hún segir þetta góða blöndu sem gefi henni tækifæri til að vinna að ýmsum spennandi og fjölbreyttum verkefnum.

„Ég er svo heppin að fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast af öllu og er óbundin af stimpilklukkunni. Lengi vel kenndi ég jóga hjá World Class og var einnig í hópi þeirra sem kenna jakkafatajóga. Þá er farið á vinnustaði og fólki gefst tækifæri til að gera léttar jógaæfingar, sniðnar fyrir þá sem sitja mikið við sína vinnu,“ segir Gróa, en undanfarin misseri hefur hún að mestu sinnt ungu fólki á vegum Virk – Starfsendurhæfingarsjóðs. „Ég kem inn í gegnum Framvegis – Miðstöð símenntunar og er að vinna með fólk á aldrinum 20-30 ára sem er að koma til baka eftir margs konar erfiðleika. Í því starfi hef ég nýtt mér jóga, leiðsögn og markþjálfun, en það er einstaklega gefandi að vinna með þessu unga fólki,“ segir hún.

Í samstarfi við aðra hefur Gróa staðið fyrir ferðum um náttúru Íslands þar sem jóga er fléttað saman við göngur. Mikið ævintýri í íslenskri náttúru.

Síðasta haust ákvað Gróa að fara út fyrir boxið, takast á við nýjar áskoranir og skráði sig í Landvættina í gegnum Ferðafélag Íslands. „Mig langaði til að gera eitthvað nýtt og reyna á mig í leiðinni. Ég hafði lengi haft áhuga á því að taka þátt í Landvættunum. Margir vina minna höfðu þegar tekið þátt, og mig langaði að vera með en það var alltaf eitthvað sem kom í veg fyrir það. En svo ákvað ég að láta verða af þessu áður en ég verð fimmtug. Þar sem ásóknin er mikil bað ég manninn minn um að vakta heimasíðu FÍ þegar opnað var fyrir skráningar í æfingaprógrammið, því ég var að vinna og var ekki í netsambandi. Honum tókst að fá pláss fyrir mig, en morguninn eftir var uppselt, að mér skilst,“ segir Gróa létt í bragði.

Skemmtileg miðaldrakrísa

Landvættirnir snúast um að ljúka fjórum þrautum, sem eru 50 km skíðaganga, 60 km fjallahjólaferð, 25 km fjallahlaup og 2,5 km útisund. „Mig langaði að æfa með hópi eftir æfingaáætlun og vissi að fólk hefði almennt verið ánægt með prógrammið hjá FÍ. Ég hef lengi stundað hlaup en hef aldrei verið mikið fyrir að synda í vötnum eða sjó, svo það óx mér í augum. Mér finnst betra að vera í sundlaug þar sem ég sé til botns og báða endana. Á æfingatímabilinu notaði ég jóga og hugleiðslu til að takast á við þessa fælni og tókst að yfirvinna hana og var því mjög stolt þegar ég lauk sundinu um síðustu helgi, í úfnu Laugarvatni. Þetta tvennt hefur hjálpað mér að ná stjórn á mínum huga,“ segir Gróa, ánægð með árangurinn.

Gróa var ekki mikið fyrir að synda í vötnum eða sjó en tókst á við þá fælni með jóga og hugleiðslu. Um liðna helgi lauk hún 2,5 km sundi í Laugarvatni.

Hópurinn fær æfingaplan fyrir hverja viku en kórónuveirufaraldurinn hefur vissulega sett strik í reikninginn. „Strax í október byrjuðum við að æfa á fullu og við hefðum átt að ljúka gönguskíðahlutanum í apríl en út af dálitlu var skíðagöngunni aflýst í ár. Við fáum sem betur fer að taka þátt í henni á næsta ári. Við höfum öll verið dugleg að æfa síðan í október. Í samkomubanninu vorum við að vísu ekki mikið á sameiginlegum æfingum, en þjálfararnir hvöttu okkur til að halda æfingarplaninu sem fólst í að hjóla, fara á gönguskíði, hlaupa og ganga á fjöll, enda hef ég sjaldan verið í svona góðu formi,“ greinir Gróa frá.

Hún segir vissulega mikinn tíma fara í æfingar. „Maðurinn minn kallar þetta miðaldrakrísu, sem mér finnst bara skemmtilegt, en það verður örugglega tómlegt þegar Landvættaprógrammið verður búið.“

Þegar Gróa er spurð hvort hún hafi þurft að fórna einhverju fyrir Landvættina svarar hún því strax játandi. „Ég hætti til dæmis í hlaupa- og gönguhópum sem ég var í, hef ekki stundað eins mikið jóga og ég hefði viljað og kemst ekki eins mikið að horfa á þegar synir mínir eru að keppa. En ég ákvað að taka þetta ár og tileinka það þessu verkefni og það hefur verið ótrúlega gefandi og gaman. Vissulega er ég orðin dálítið lúin en ég ætla að klára þetta með stæl,“ segir hún ákveðin.

Lánsöm og þakklát

Gróa hefur hugsað vel um heilsuna frá því hún var unglingur. „Ég var ung þegar ég hóf að stunda hlaup og svo hef ég lengi stundað og kennt jóga. Ég og vinkonur mínar eru allar orkukanínur, eins og við segjum sjálfar, og ég fæ mikla útrás með því að hreyfa mig. Undanfarin ár hef ég fundið æ betur hvað það gerir mér gott að vera mikið úti í náttúrunni og uppi á fjöllum. Þegar ég kem heim úr slíkum ferðum er ég endurnærð og miklu skemmtilegri manneskja en áður en ég fór af stað, “ segir Gróa kankvíslega, en fyrr í sumar hljóp hún Fimmvörðuhálsinn á einum degi og stuttu síðar Laugaveginn á tveimur dögum.

„Fyrir Laugavegshlaupið þjálfuðum við okkur þannig að við gátum verið á hreyfingu í fimm til sex tíma hvorn daginn. Fyrri daginn gengum við upp allar brekkur og hlupum þegar við gátum. Við hlupum meirihluta leiðarinnar seinni daginn. Þetta var hrikalega gaman. Ég hef þrisvar sinnum hlaupið Laugaveginn á einum degi og gengið hann þrettán sinnum og þá oftast verið að leiðsegja, svo samtals hef ég farið þessa leið sautján sinnum. Ég mæli með þessari leið ef fólk hefur áhuga á að sjá Ísland í hnotskurn,“ segir Gróa, sem hefur síður en svo lagt hlaupaskóna á hilluna þetta sumarið. Hún ætlar að taka þátt í svokölluðu Jökulárshlaupi í ágúst, en þá er hlaupið frá Dettifossi og niður í Ásbyrgi, um 33 km leið. Það er hlaupið sem hún tekur sem hluta af Landvættunum.

Verslunarmannahelginni ætlar Gróa að verja í útiveru en síðan taka ný verkefni við. „Ég er með eigið fyrirtæki sem heitir Gróandi ráðgjöf, sem sinnir jóga, leiðsögn og markþjálfun. Svo er ég með í öðru fyrirtæki í samstarfi við tvær vinkonur mínar, en það heitir Grænar ferðir og snýst um að fara með hópa í göngu- og jógaferðir. Að auki erum við Edith Gunnarsdóttir, vinkona mín, með námskeið sem kallast FÍ jóga og göngur og er á vegum Ferðafélagsins. Það er fyrir fólk sem er að stíga sín allra fyrstu skref hvað varðar hreyfingu, t.d. eftir veikindi. Við förum með fólk í alls konar léttar göngur, sem síðan þyngjast eftir því sem líður á og einu sinni í viku er jóga nidra, sem er slökunarjóga,“ segir Gróa og bætir við að hún telji sig ótrúlega lánsama að fá að vinna við það sem hún hefur ástríðu fyrir. „Ég er mjög meðvituð um það og er ákaflega þakklát fyrir að fá tækifæri til þess,“ segir hún að lokum.