„Af öllum dögum,“ segir Ari Eldjárn hlæjandi um netárásina á tix.is sem hófst þegar miðasala byrjaði fyrir nýju uppistandsýningu hans, Áramótaskop. Þetta verður fyrsta stóra sýningin hans Ara á sviði frá Netflix þættinum hans.

Ari ræddi við Margréti Maack á Fréttavaktinni um nýjustu sýninguna sína og fjarfunda-gigg á tímum Covid-19. Segist hann hafa haft gaman af slíkum verkefnum þó honum hafi stundum orðið ansi heitt þegar verkefnin hrönnuðust saman á eitt kvöld.

„Ég lenti í því einu sinni að mér var orðið svo heitt þegar ég var að skemmta á fjarfundum og ég var með þrjá í röð. Ég fór úr buxunum fyrir seinasta giggið, það bara sá það enginn. Mér fannst það algjör lúxus. Bara lágmarksviðhald á sjálfum mér, bara í skyrtu og bindi og HALLÓ,“ segir Ari.

Uppselt er á átta af tíu sýningum Ara. Fylgist með viðtalinu við Ara í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld klukkan 18:30.