Guðmundur Oddur Magnússon, eða Goddur eins og hann er oftast kallaður, er grafískur hönnuður, myndlistarmaður og kennari. Goddur segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hans, tveimur verkum eftir franska listamanninn Marcel Duchamp sem hann sá sem ungur maður árið 1979 í heimsókn á listasafnið í Fíladelfíu í Bandaríkjunum.
„Það eru tvær myndlíkingar um hvað manni finnst fallegt, það er annars vegar spegillinn; þegar þú sérð eitthvað af sjálfum þér í einhverju, sínum augum lítur hver á silfrið. Svo er það hin tegundin þar sem myndlíkingin er hurð eða gluggi sem opnast inn í annan heim og þú breytist við það, þú ferð á svæði sem þú hefur aldrei áður komið á.
Þegar maður er að uppgötva verk eftir Marcel Duchamp, eins og The Bride Stripped Bare by Her Bachelors, Even (The Large Glass) eða Stóra glerið, sem er myndlíking fyrir gullgerðarlist eða alkemíu. Þegar maður áttar sig á þessu, átökunum sem eru í glerinu á milli brúðgumans og brúðarinnar, á milli hins kvenlæga og karllæga, þá kemur þetta móment þegar maður fær skilning.
Hitt verkið eftir Duchamp heitir Étant donnés eða Gægjugatið, þar horfir maður í gegnum gægjugat á táknmynd sem er einhvers staðar úr grískri goðafræði, mjög líklega táknmynd fyrir Pallas Aþenu eða Mínervu þar sem hún heldur á kyndli en hún er búin að missa kyndilinn og liggur eins og hún hafi verið svívirt. Þetta eru þau verk sem voru fyrir mig grundvallarverk. Þetta var fyrsta stóra upplifunin þegar maður fattaði opnunina, þegar maður fór inn í annan heim og fékk nýjan skilning.“