Guð­mundur Oddur Magnús­son, eða Goddur eins og hann er oftast kallaður, er grafískur hönnuður, mynd­listar­maður og kennari. Goddur segir les­endum Frétta­blaðsins frá listinni sem breytti lífi hans, tveimur verkum eftir franska lista­manninn Marcel Duchamp sem hann sá sem ungur maður árið 1979 í heim­sókn á lista­safnið í Fíla­delfíu í Banda­ríkjunum.

„Það eru tvær mynd­líkingar um hvað manni finnst fal­legt, það er annars vegar spegillinn; þegar þú sérð eitt­hvað af sjálfum þér í ein­hverju, sínum augum lítur hver á silfrið. Svo er það hin tegundin þar sem mynd­líkingin er hurð eða gluggi sem opnast inn í annan heim og þú breytist við það, þú ferð á svæði sem þú hefur aldrei áður komið á.

Þegar maður er að upp­götva verk eftir Marcel Duchamp, eins og The Bride Stripped Bare by Her Bachelors, Even (The Large Glass) eða Stóra glerið, sem er mynd­líking fyrir gull­gerðar­list eða alkemíu. Þegar maður áttar sig á þessu, á­tökunum sem eru í glerinu á milli brúð­gumans og brúðarinnar, á milli hins kven­læga og karl­læga, þá kemur þetta móment þegar maður fær skilning.

Hitt verkið eftir Duchamp heitir Étant donnés eða Gægju­gatið, þar horfir maður í gegnum gægju­gat á tákn­mynd sem er ein­hvers staðar úr grískri goða­fræði, mjög lík­lega tákn­mynd fyrir Pallas Aþenu eða Mínervu þar sem hún heldur á kyndli en hún er búin að missa kyndilinn og liggur eins og hún hafi verið sví­virt. Þetta eru þau verk sem voru fyrir mig grund­vallar­verk. Þetta var fyrsta stóra upp­lifunin þegar maður fattaði opnunina, þegar maður fór inn í annan heim og fékk nýjan skilning.“