Maður nokkur í Indiana ríki í Banda­ríkjunum á­kvað að stefna for­eldrum sínum fyrir að henda gríðar­stóru klám­safni mannsins, en hann metur sjálfur verð­gildi safnsins um 29.000 banda­ríkja­dollara eða því sem nemur rúmum 3,5 milljónum ís­lenskra króna, að því er fram kemur á vef Guar­dian.

Um er að ræða 40 ára gamlan karl­mann sem á­kvað að stefna for­eldrum sínum fyrir al­ríkis­dómi í Michigan borg en hann flutti inn til for­eldra sinna árið 2016 eftir að hafa gengið í gegnum skilnað.

Hann segir að þegar hann hafi flutt út 10 mánuðum síðar, hafi þau sent dótið hans til hans á nýtt heimili hans í borginni Muncie í Indiana en hann segir að þar hafi vantað 12 kassa af klám­blöðum og klám­myndum. For­eldrar mannsins viður­kenna að þau hafi hent klám­safninu.

Í kjöl­farið lagði maðurinn fram kvörtun við lög­reglu í Ottawa sýslu en á­kæru­valdið í sýslunni neitaði að á­kæra for­eldrana vegna málsins. Meðal gagna í málinu er úr­dráttur úr tölvu­póst­sam­skiptum mannsins við föður sinn þar sem faðir hans segir honum að hann telji sig hafa gert honum mikinn greiða með því að hafa losað hann við „allt þetta dót.“

Maðurinn fer fram á að for­eldrar sínir borgi sér þre­falt verð­gildi safnsins í miska­bætur, eða rúm­lega 87.000 banda­ríkja­dollara sem nemur um 10 milljónum ís­lenskra króna.