Björn Lofts­son ólst upp við mikla höfnun, van­virðingu og ást­leysi bæði af hálfu föður síns sem og ís­lenska skóla­kerfinu. Hann segir í við­tali við Frétta­blaðið að skortur á viður­kenningu og þessi mikla höfnun sem hann upp­lifði hafi mótað sýn hans á lífið og gert honum erfitt fyrir að eiga venju­leg sam­skipti og gott líf.

„Ég upp­lifði það að ég skipti engu máli, sér­stak­lega í lífi föður míns, frá því að ég var barn og allt fram á full­orðins árin. Móðir mín var svo gífur­lega með­virk með föður mínum að hún setti mig alltaf í fyrsta sætið og verndaði mig fyrir erfið­leikunum í staðin fyrir að leyfa mér að takast á við þau sjálfur. Ég fékk því aldrei rétt verk­færi til þess að vinna með sem gerði það að verkum að ég þroskaðist ekki rétt. Slíkt upp­eldi af hálfu for­eldra kallast í dag að vera „þroska­þjófur“ og það var ekki fyrr en ég var kominn á fer­tugs­aldurinn að ég áttaði mig á því hversu brengluð mín sýn var á heiminum,“ segir Björn sem ný­lega tók stórt skref í átt að bata þegar hann bauð for­eldrum sínum í mat á heimili sínu, vitandi það að af­sökunar­beiðni gagn­vart upp­eldinu fengi hann aldrei.

Fékk enga kennslu í heilan mánuð vegna hegðunarvanda

Björn var góður náms­maður þegar hann var ungur drengur og skaraði hann fram úr í stærð­fræði. Þrátt fyrir góðan náms­árangur var honum gert að sitja í „tossa­bekk“ vegna hegðunar­vanda.

„Ég var það góður í stærð­fræði að ég var settur í hrað­ferð. Þá þurfti ég bara að mæta í annan hvern stærð­fræði tíma vegna þess að ég var svo langt á undan bekknum. En ég glímdi við ADHD sem þá var ekki þekkt fyrir­bæri og vegna þess var ég talinn vera með hegðunar­vanda­mál og settur í „tossa­bekk,“ segir hann.

Ég var í rauninni fyrir föður mínum í stað þess að vera elskaður af honum.

Björn, líkt og margir ungir krakkar, átti það til að stunda prakkara­strik sem var illa tekið í og vegna þess að hegðun hans var talið vanda­mál þá var hann gjarnan tekin úr tímum.

„Eitt skipti þá braut ég rúðu og ég var látinn vera hjá skóla­stjóranum í heilan mánuð. Þá fékk ég enga kennslu. Í staðin fyrir að tekið yrði á mínum hegðunar­vanda­málum þá var mér bara ýtt til hliðar og ég upp­lifði mikla höfnun. Mér fannst ég aldrei geta gert neitt rétt, ég gæti aldrei lært eða orðið eitt­hvað úr mér.“

Höfnunin sem Björn upp­lifði frá for­eldrum sínum var sú að fá aldrei viður­kenningu frá þeim.

„Ég var í rauninni fyrir föður mínum í stað þess að vera elskaður af honum. Ekkert barn á að þurfa að upp­lifa það. Pabbi lofaði alltaf öllu fögru, en hann er alkó­hól­isti sem vann á sjó á þeim tíma. Þegar hann kom í land lofaði hann mér til dæmis því að við færum saman í veiði­ferðir og fleira. Síðan varð aldrei neitt úr því og mamma sagði mér alltaf að pabbi væri veikur eða að hann hefði þurft að vinna. Þá var hann á fylleríi eða þunnur,“ segir hann.

Kann ekki að taka hrósi

Í kjöl­farið fór Björn með þessi skila­boð út í lífið og hefur hann á­vallt leitað sér að viður­kenningu hvar sem hann kom. Fljót­lega leiddist Björn út í það að leita sér huggunar í á­fengis­drykkju og fíkni­efna­neyslu og fannst honum hann ekki eiga neitt annað skilið.

„Ég var að keyra mig í þrot og var á barmi tauga­á­falls eftir að hafa upp­lifað höfnun aftur og aftur og það versta var að vera svikinn af for­eldri. Að maður sé í raun fyrir for­eldrum sínum á meðan maður á að vera elskaður, fá hrós og ást,“ segir Björn.

Þegar Björn áttaði sig á því hversu brengluð sýn hans á lífið var á­kvað hann að vinna í sér og hefur hann náð góðum bata í dag. Hann á þó langt í land hvað hrós varðar og segist hann enn þann dag í dag fá hnút í magann ef ein­hver hrósar honum.

Ég fór út í lífið með það að ég væri einskis virði.

Björn á tvo syni sem hann reynir að sinna af ein­lægni og alúð og gerir hann allt sem í hans valdi stendur til þess að yfir­færa upp­lifun sína ekki yfir á drengina.

„Ég passa mig á því að lofa aldrei neinu sem ég veit að ég get ekki staðið við og þegar ég lofa þeim ein­hverju þá stend ég alltaf við lof­orðin. Ég passa mig á því að segja strákunum mínum að þeir séu elskaðir og metnir og þeir fá viður­kenningu fyrir það sem þeir gera.“

Birni finnst sorg­legt að vita til þess að önnur börn þurfi að ganga í gegnum það sama og hann upp­lifði og segist hann sjá það á börnum þegar van­líðanin yfir­tekur þau.

„Mér finnst það svo sorg­legt, en ég sé líka þegar börn upp­lifa þetta ekki og hversu vel þeim gengur og hversu vel þeim líður.“

Fyrirgaf föður sínum án þess að fá afsökunarbeiðni

Björn veltir því fyrir sér hvernig líf hans hefði orðið ef upp­eldi hans hefði verið ást­ríkara og til­vera hans viður­kennd á góðan hátt. Honum þykir mikil­vægt að opna augu fólks fyrir þeim vanda­málum sem stans­laus gagn­rýni og engin upp­bygging geta haft í för með sér.

„Ég hafði til dæmis aldrei neina trú á mér. Ég hélt alltaf að allt sem ég tæki mér fyrir hendur myndi mis­takast af því að þannig var ég alinn upp. Mér var aldrei sagt að ég stæði mig vel eða að hlutirnir væru vel gerðir. Það þurfa allir þessa viður­kenningu,“ segir Björn og bætir því við að ný­verið hafi hann á­kveðið að setjast á skóla­bekk og klára smiðs­nám þrátt fyrir að hafa á­hyggjur af því að mis­takast.

„Ég hef lengi unnið sem smiður og fékk mikið metið inn í námið, ég þurfti að klára ör­fáa kúrsa og þegar ég út­skrifaðist fékk ég svo góðar ein­kunnir að ég fór með þær til kennarans og spurði hvort þetta gæti í raun og veru verið rétt. Að ég hafi raun­veru­lega fengið níu og tíu í á­föngum eins og dönsku,“ segir Björn og hlær.

Eins og fyrr sagði tók Björn stórt skref ný­lega þegar hann bauð for­eldrum sínum í mat, settist niður með þeim og naut kvöldsins.

„Ég var í raun að fyrir­gefa pabba mínum fyrir eitt­hvað sem ekki er búið að biðjast af­sökunar á og verður aldrei gert. Það var stór sigur fyrir mig.“

Björn með yngri syni sínum / „Segið börnunum ykkar að þið elskið þau svo þau finni það, kyssið þau og knúsið þó þau séu orðin full­orðin.“
Mynd/Aðsend

Björn biður for­eldra að hugsa sig vand­lega um og sjá hversu miklu máli það skiptir að sýna börnunum að þau skipti máli. Að þau séu þess virði og að hvetja þau á­fram.

„Ég fór út í lífið með það að ég gæti ekki lært, ég fór út í lífið með það að ég væri einskis virði, öll lof­orð voru svikinn af föður mínum og ég var aldrei nóg. Kæru for­eldrar, sparið börnunum ykkar þessa vinnu sem ég þurfti að leggja á mig og segið börnunum ykkar að þið elskið þau svo þau finni það, kyssið þau og knúsið þó þau séu orðin full­orðin. Hrósið þeim og upp­hefjið. Hvetjið þau á­fram og leyfið þeim að læra sjálf. Standið svo við gefin lof­orð.“