Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali þekkir vel hvernig er að fara gegnum breytingaskeiðið og segir að einkenni hafi ekki verið augljós. Hún fann síðan leið til þess að komast gegnum breytingaskeiðið og líður vel í dag. „Síðustu fimm ár hef ég verið að gjörbreyta mínum lífsstíl úr því að vera sófakartafla sem vann sér til húðar og spáði lítið í mataræði í það að átta mig á mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli einkalífs og vinnu og einblína á hollt mataræði og hreyfingu. Ég hef gert margar litlar breytingar en stærsta breytingin var þegar ég fór í ástandsmælingu hjá Greenfit og sá svart á hvítu hvar mín heilsufarsvandamál lágu og hvað ég gæti gert til að laga þau.“

Ásdís fór að finna fyrir breytingum á líðan sinni og líkama fyrir tveimur árum en tengdi það ekki strax við breytingaskeiðið þó svo að einkenni væri í raun til staðar. „Fyrir tæpum tveimur árum fór ég að finna fyrir meiri þreytu og orkuleysi ásamt gífurlegum sveiflum í skapi. Ég gat dottið niður í depurð án þess að neitt væri að og ég var miklu styttri í spuna en ég átti að mér að vera. Ég fann fyrir orkuleysi á æfingum og margir bentu mér góðlátlega á að ég væri nú að eldast og það myndi hægjast á fólki með aldrinum. Einnig byrjaði ég að þyngjast aftur. Eftir Fossavatnsskíðagöngukeppnina áttaði ég mig á því að það var ekki allt með felldu og pantaði mér tíma hjá heimilislækni. Hann pantaði blóðprufu og þá kom í ljós að ég var komin á bullandi breytingaskeið.

Ásdís segir að einkennin hafi alls ekki verið augljós og það hafi tekið tíma að komast að því hvað var í raun í gangi. „Hjá mér voru þau í raun ekki augljós. Þeir sem ég talaði við, sem reyndar voru ekki læknar, voru með alls konar skýringar, ég væri að eldast, orkuleysi væri eðlilegt þegar þú eldist, og það hægist á fólki með aldrinum. Það væri líklega bara stress og kannski jafnvel kulnun í gangi.

Aðrir töldu þetta vera ofþjálfun. Enginn sagði, ætli þú sért ekki bara komin á breytingaskeiðið. Ég hef einmitt tekið eftir því að konur eru almennt ekki greindar með breytingaskeiðið og kulnun virðist vera mjög algeng greining á breytingaskeiðinu. Margar konur fara ungar á breytingaskeiðið og þær virðast eiga mjög erfitt með að fá greiningu.“

Hvað gerir þú til að komast gegnum breytingaskeiðið?

„Ég hef verið að glíma við hátt kólesteról sem ég held niðri með mataræði. Minn læknir mælti ekki með því að fara á hormóna þar sem kólesterólið væri svo hátt og ég ákvað því að halda áfram að gera tilraunir með mataræði. Ég hef náð að halda einkennunum alveg niðri með því að vanda mig í mataræði og þar spilar sykurinn stórt hlutverk. Ef ég sleppi sykrinum finn ég ekki fyrir neinum einkennum og sem bónus virðist sykurleysið hafa róandi áhrif á þvagblöðruna þannig að ég þarf ekki lengur að vakna á hverri nóttu til að pissa.

Helmingur mannkyns mun á einhverjum tímapunkti í lífi sínu fara á breytingaskeiðið. Ef þú ert á miðjum aldri og finnur fyrir óeðlilega miklum skapsveiflum, orkuleysi, depurð, þunglyndi, þá myndi ég panta tíma hjá mínum lækni og fá hormónamælingar. Ég hef aldrei fundið fyrir algengum einkennum eins og hitakófum og nætursvita og vonandi slepp ég alfarið við það,“ segir Ásdís að lokum.