Fárra væntanlegra kvikmynda er beðið með jafni mikilli eftirvæntingu, í það minnsta í nördaheimum, og þriðju Marvel-myndarinnar um Köngulóarmanninn, Spider Man: No Way Home.

Myndin er enda undir slíkum leyndarhjúp að enn er lítið um kynningarefni. Þessi skortur kristallast ágætlega í því að á vefsíðu Laugarásbíós hékk um tíma „falsað“ auglýsingaveggspjald fyrir myndina. Líklega eftir einhvern ofurákafan aðdáanda sem kemur upp um sig með því að rangnefna myndina Where is My Home?

Annars var svo vel að verki staðið að vel hefði mátt ætla að plakatið væri ekta.

Þegar Fréttablaðið forvitnaðist um hvernig aðdáendaföndur hefði ratað á vef kvikmyndahússins var fátt um svör hjá Laugarásbíói og spurningum um þessa heldur léttvægu yfirsjón var vísað til dreifingaraðila myndarinnar.

Skömmu síðar var síðan hið glæsilega Where‘s My Home?-plakat horfið af vefnum og í staðinn komið viðurkennt , svart og leyndardómsfullt plakat fyrir réttnefnda No Way Home.

Heimagerða veggspjaldið sýnir þrískiptan Köngulóarmann leikaranna Toby Maguire, Andrew Garfield og Tom Holland sem allir hafa leikið Lóa en hermt er að þeir muni allir koma við sögu í öfugsnúinni tímalínu myndarinnar.