Samkvæmt breskum vísindamönnum sem sérhæfa sig í að rannsaka heilastarfsemi verða einstaklingar ekki fullkomlega „fullorðnir“ fyrr en þeir eru á fertugsaldri, en þetta kemur fram á vef BBC.

Þar kemur fram að þær skilgreiningar sem séu við lýði í nútímasamfélagi á því hvað teljist að vera fullorðinn séu afar brenglaðar en samkvæmt Peter Jones, prófessor við Cambridge háskóla er þroskaferli heilans og taugakerfisins töluvert flóknara en að hægt sé að slá því föstu að einstaklingar verði fullorðnir við átján ára aldur.

„Þær skilgreiningar sem við notum um það að vera „fullorðin“ verða æ súrrealískari. Það er mun flóknara ferli sem spannar í raun og veru yfir þrjá áratugi,“ segir Jones en tekur þó fram að það sé mismunandi eftir einstaklingum hvenær nákvæmlega því ferli lýkur. Hann segir jafnramt að það sé skiljanlegt að hin ýmsu kerfi líkt og menntakerfið, heilbrigðiskerfið og dómskerfið nýtist við slíkar skilgreiningar.

Hann telur þó að reyndir dómarar geri þó í auknum mæli greinarmun á milli þess einstaklings sem brýtur af sér nítján ára gamall og hinna sem gera það seint á fertugsaldrinum. „Ég held að kerfið sé að aðlaga sig að nokkru sem allir vita en enginn spáir í, að fólki líkar ekki við hugmyndina um lirfuna sem breytist skyndilega í fiðrildi,“ segir Jones, sem segir að það að fullorðnast sé vegferð en ekki skyndilegur áfangastaður.

„Það er ekkert barnæska og svo bara fullorðinsár. Fólk er á ákveðinni vegferð, ákveðinni þroskabraut.“