Ásta Arnbjörg Pétursdóttir er fjölskyldufræðingur hjá Fjölskylduráðgjöf Norðurlands – Skrefi. Hún skrifaði lokaritgerð sína til MA-gráðu í fjölskyldufræði um farsæld í hjónabandi. Við fengum Ástu til að svara nokkrum spurningum um hjónabandið sem hún féllst góðfúslega á að gera. Fyrsta spurningin var hvort til væri svar við því hver sé lykillinn að farsælu hjónabandi.

„Þetta er stór spurning sem vissulega hefur verið leitast við að svara í rannsóknum en helstu niðurstöður þeirra eru að til þess að geta átt langlíft og farsælt hjónaband er mjög mikilvægt að vera með raunhæfar væntingar til maka síns og einnig til hjónabandsins. Fólk þarf að búa yfir þrautseigju. Djúpstæð vinátta og nánd þarf að vera sá grunnur sem hjónabandið byggir á. Fólk þarf að virða maka sinn og hjónabandið og vera tilbúið að leggja á sig til að hlúa að sambandinu. Það er eins með hjónabandið og annað að ef því er sinnt af nærgætni og alúð þá dafnar það en báðir aðilar verða að leggja sig fram svo að jafnvægi ríki,“ svarar Ásta.

Verjið tíma saman

Þegar Ásta er spurð hvort hjónabandið sé skuldbinding tveggja einstaklinga, svarar hún: „Á Íslandi er hjónaband ekki löglegt nema það sé skuldbinding tveggja einstaklinga svo það er það form sem við þekkjum. Ég sem ráðgjafi get ekki annað en ráðlagt fólki að halda sig við hjónabandsskuldbindingu sína því ég hef of oft hitt fólk sem upplifir gríðarlega vanlíðan eftir að hafa gert eitthvað sem átti að vera spennandi tilbreyting og lífga upp á lífið en endar með tilfinningalegu niðurbroti. Við erum tilfinningaverur og verðum að lifa samkvæmt því, ég hvet því fólk til að hugsa vel út í hvað það er að fara og hverju þetta á að skila inn í hamingjubankann áður en það leggur af stað út í slíkt ferðalag. Það skiptir miklu máli að hjón verji tíma saman og eigi eitthvað sameiginlegt til að hlúa að og þá er vissulega mjög gott að eiga sameiginlegt áhugamál,“ segir hún. „Hjón verja oft mjög litlum tíma saman vegna annríkis í daglegu lífi og því er það styrkur að geta átt sameiginlegt áhugamál.“

Ásta segir að vitað sé hvað þarf til að hjónaband endist og einnig helstu ástæður fyrir skilnuðum. „Samskiptaörðugleikar eru einn sá þáttur sem oft er nefndur sem ástæða skilnaðar, fólk þarf að kunna að tjá sig og ræða málin sín á milli af virðingu og kærleika til að geta leitt mál til lykta. Þá getur ástæða skilnaðar verið sú að annar aðilinn eða báðir í hjónabandinu eru ekki færir um að gefa af sér eða hlúa að hjónabandi vegna t.d. fíknivanda, veikinda eða eitthvað á lífsleiðinni hefur orðið þess valdandi að einstaklingur á erfitt með að skuldbinda sig annarri manneskju. Miklu máli getur skipt við hvernig aðstæður fólk hefur alist upp og hvaða veganesti það fær út í lífið þegar kemur að því að skuldbinda sig. Ef fólk er ekki tilbúið til að takast á við sjálft sig og leita eftir aðstoð ef á þarf að halda er auðvelt að falla í þá gryfju að kenna makanum um allt sem miður fer og þá er skilnaður oft svarið. En auðvitað geta aðstæður verið þannig í sumum tilfellum að skilnaður er nauðsynlegur. Það að þekkja tilfinningar sína og geta tjáð sig skiptir miklu fyrir farsæld fólks og samskiptahæfni þess svo það hefur vissulega áhrif á gæði hjónabandsins,“ útskýrir Ásta.

Fyrstu árin erfiðust

Stundum er talað um að fyrstu sjö árin í hjónabandi séu erfiðust, er eitthvað til í því?

„Flóknustu ár hjónabandsins eru þegar mest álag er og vill það oft vera í kringum barneignir og þegar fólk er að koma undir sig fótunum. Sá álagstími er oftar en ekki á fyrstu árum hjónabandsins. Þá er það svo að skilnaðartíðni er mest fyrstu árin og svo dregur úr henni eftir því sem fólk hefur verið gift lengur,“ svarar hún og bendir á að skilnuðum hafi farið að fjölga á áttunda áratugnum. „Það hafa ekki orðið miklar breytingar á skilnaðartíðni síðustu áratugi en tæplega 40% hjónabanda enda með skilnaði. Það er vissulega hærra en var á fyrri hluta síðustu aldar.“

Ásta vill ekki endilega meina að streita í nútímaumhverfi hafi neikvæð áhrif á hjónabandið. „Margir gera miklar kröfur til sín á ýmsum sviðum en ef það gerir líka kröfur til sín varðandi hjónabandið er ekkert að óttast. Það er ekki fyrr en hjónabandið er látið sitja á hakanum sem fólk þarf að hugsa sinn gang.“

Flókið nútímalíf

Er líf nútímafólks of flókið fyrir gott hjónaband?

„Vissulega er líf nútímafólks oft ansi flókið og miklar kröfur eru gerðar en oft á tíðum eru þetta í raun heimatilbúnar kröfur. Ef fólk ígrundar líf sitt vel og ákveður meðvitað í hvað það eyðir tíma sínum í stað þess að fljóta með straumnum bara eitthvert, má breyta miklu. Fólk þarf að velja það að eiga gott hjónaband, það kemur ekki af sjálfu sér. Auðvitað býr fólk við mismunandi aðstæður og lífið getur verið erfitt og flókið en það kemur samt ekki í veg fyrir það að við getum á öllum tímum ákveðið að hlúa að hjónabandinu með einhverjum hætti.“

Skiptir gott kynlíf alltaf máli í hjónabandi?

„Nei, það gerir það ekki, í mörgum hjónaböndum er gott kynlíf hluti af góðu hjónabandi og fyrir marga skiptir það miklu máli. En upp geta komið veikindi eða aðstæður sem gera það að verkum að kynlíf er ekki inni í myndinni en þrátt fyrir það heldur gott hjónaband. Fólk finnur sínar leiðir til að viðhalda nándinni því að það er nándin, snertingin og umhyggjan sem skiptir svo miklu,“ segir Ásta og segir að ef hjón séu í góðu hjónabandi þegar á efri ár er komið líði þeim vel andlega og séu hamingjusöm. Það skipti máli. „Gott hjónaband getur vissulega gert efri árin hamingjuríkari. Við erum félagsverur og í góðu hjónabandi áttu góðan vin sem þú getur leitað til með nánast hvað sem er, vin til að deila með bæði gleði og sorg. Að eiga örugga höfn í maka sínum skiptir miklu máli og það er ekki síður mikilvægt á efri árum en þegar við erum yngri.“