Erna Ýr Öldu­dóttir er nýjasti gesturinn í pod­casti fjöl­miðla­mannsins Sölva Tryggva­sonar. Í við­talinu er víða komið við og ræðir Erna meðal annars um frægan borgara­fund um lofts­lags­mál á RÚV fyrir þremur árum. Erna var þar á öðru máli en meiri­hluti þeirra sem tóku þátt í um­ræðunum og var gengið býsna hart að henni í þættinum og eftir hann. Erna segist hafa vitað út í hvað hún var að fara.

„Ég áttaði mig á því að þetta yrði lík­lega svona þegar ég sá að við vorum 2 á sömu línu á móti 12, þannig að það var ekki neitt jafn­vægi í því. Þá fattaði ég að þættinum væri stillt upp til að jaðar­setja mig og Magnús Jóns­son, fyrr­verandi veður­stofu­stjóra, út úr um­ræðunni. Þannig að ég átti svo sem alveg von á því að fá ekki sann­gjarna með­ferð, en ég átti ekki von á því að þetta yrði svona slæmt. Þegar það var slökkt á mynda­vélunum var fólk mjög til­finninga­legt og það var maður sem kom til mín og bauð mér að koma í endur­menntun. Þetta var lífs­reynsla á á­kveðinn hátt.”

„Það eru margir hneykslaðir á því sem ég segi stundum, en það er allt í lagi.“

Erna, sem hefur oft vakið at­hygli fyrir að halda á lofti skoðunum sem eru um­deildar, segist í þættinum mjög með­vituð um að hún sé ekki allra og að það sé í góðu lagi.

„Það eru margir hneykslaðir á því sem ég segi stundum, en það er allt í lagi. Ég átta mig á því að ég er oft að halda úti skoðunum sem eru ekki endi­lega vin­sælar og fólk má alveg hafa skoðanir á mér. Ég ætla ekki að gera öðrum upp annar­legar hvatir, enda vil ég ekki að aðrir geri það við mig. En við mættum stundum öll hugsa að það er mjög gott að eiga í rök­ræðum við þá sem eru ó­sam­mála manni. Annars lærir maður ekki neitt. Við erum komin á skrýtinn stað ef allir eiga að hafa sömu skoðun.“

Þarft ekki að vera góð manneskja

Erna Ýr segir dyggða­skreytingar orðnar mjög al­gengar á Ís­landi og að við lifum á tímum þar sem á­sýnd sé oft miklu ofar á lista en raun­veru­legar að­gerðir:

„Við lifum á tímum ó­dýrra dyggða. Þú þarf ekki að vera góð manneskja, þú þarft bara að líta út fyrir að vera góð eða góður. Með því að hafa réttu skoðanirnar, kaupa réttu vörurnar eða segir það sem hljómar vel. En þú þarft ekki að leggja neitt á þig eða fram­kvæma neitt, bara láta stöðugt vita að þú sért í rétta liðinu. Það er miklu erfiðara að vera góður en að líta út fyrir að vera góður. Það er hægt að nota mjög ó­dýrar leiðir með sam­fé­lags­miðlum til að leggja allt í að líta vel út.”

Við lendum öll í einhverju

Hún er einnig á því að við lifum á tímum of mikillar fórnar­lamba­væðingar:

„Fólk getur fengið mikla at­hygli og sam­úð og lamið á öðrum með því að aug­lýsa sig sem fórnar­lömb. Til þess að vera fórnar­lamb á sam­fé­lags­miðlum þarf maður ekki að hafa lagt neitt á sig eða gert neitt, heldur þarf maður bara að lenda í ein­hverju. Lífið er bara þannig að við lendum öll í ein­hverju. Lífið er oft erfitt fyrir okkur öll og það er ekkert endi­lega neitt merki­legt að hafa lent í ein­hverju. Það er hluti af lífinu. Það fólk sem við lítum upp til er oft á tíðum fólk sem tekst á við erfið­leikana af reisn og þarf ekki að aug­lýsa sig sem fórnar­lamb. Með þessu er ég alls ekki að segja að fullt af hlutum þarfnist ekki um­ræðu. Auð­vitað þarf að laga margt og við eigum að ræða hluti. En við erum komin býsna langt í því að fólk sé að sækja sér at­hygli út á það að vera fórnar­lömb.“

Þáttinn með Ernu og alla aðra þætti Sölva Tryggva­sonar má nálgast á heima­síðunni: sol­vi­tryggva.is