Jón Gnarr, grínisti, leikari og fyrrverandi borgarstjóri, fer hörðum orðum um þau sem borða svína­kjöt yfir há­tíðirnar en í færslu sinni á Twitter gengur hann svo langt að full­yrða að vísa ætti því fólki úr landi. „Ég vil alls ekki vera eitt­hvað nei­kvæður en fólk sem borðar svína­kjöt á jólunum eru föður­lands­svikarar,“ skrifar Jón í færslu sinni.

Meðal þeirra sem svara Jóni er athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, eða Simmi Vill, en hann bendir á ýmis íslensk staðarnöfn sem bera nafn svínsins á Íslandi, til að mynda Svínadalur, Svínafell, Svínafellsjökull og Svínaskarð. „Held þú ættir að kynna þér betur sögu Íslands áður en þú ferð að kenna hana,“ segir Simmi léttur í bragði.

Þessu svarar Jón með því að lítið sé vitað um hvaðan nöfnin koma en viðurkennir að villt svín hafi líklegast búið hér á landi. „En þau gáfust upp og dóu út. veit ekki hvort það var af leti eða bara aumingjaskap. en hvað sem það var þá hafði það engin áhrif á íslenska Kónginn: sauðkindina,“ skrifar Jón.

Rækjusamloka, SS pylsur og skyr á matseðlinum

„Svínið hefur aldrei staðið með okkur og ís­lenska land­náms­svínið gafst upp og yfir­gaf okkur,“ skrifar Jón í annarri færslu en hann segir svína­át vera danskan sið og slíkt sé móðgun við ís­lensku sauð­kindina. Þá segir Jón það vera synd að fagna fæðingu Jesú með svína­steik þar sem Jesú var nú gyðingur og gyðingar borða ekki svína­kjöt.

Að lokum leggur Jón til mat­seðil sem allir myndu borða ef hann fengi að ráða; rækju­sam­loku í for­rétt, SS pulsur í aðal­rétt og skyr með sykri og gervi­s­ykri í eftir­rétt. „Öllu skolað niður með Coke,“ segir Jón. Sjálfur verður Jón með steik frá Veganæs, kartöflur og vegan Waldorf salat, sem hann býr til sjálfur, og síðan ís í eftirrétt.