Mannauðsstjórnun hefur þróast hratt undanfarna áratugi og hefur breyst frá því að vera „starfsmannahald“ – þar sem mesta áherslan var lögð á að halda starfsmannakostnaði í lágmarki, ráða inn það fólk sem hendi var næst, borga út laun og túlka kjarasamningsákvæði – yfir í að vera þroskað fag mannauðsfólks sem leikur lykilhlutverk í að fyrirtæki og stofnanir nái að koma stefnu sinni í framkvæmd.

Mannauðsfólk er hreyfiafl breytinga

Á tímum heimsfaraldurs og mikilla breytinga hefur kristallast skýrt að mesti auður fyrirtækja er fólkið sem vinnur hjá því. Til að ná árangri skiptir öllu máli að laða til sín framúrskarandi fólk, ráða rétta einstaklinga í rétt hlutverk, skapa vinnuumhverfi þar sem fólki líður vel, þar sem það fær að nýta hæfileika sína til fulls og vaxa í starfi. Góður mannauðsstjóri er lykill að því að þetta gangi upp. Hann mótar stefnu varðandi mannauð og menningu ásamt því að efla og styðja aðra stjórnendur í því að vera framúrskarandi leiðtogar sem hlúa sem allra best að starfsfólki.

Mannauður, félag mannauðsfólks á Íslandi, er sístækkandi félag þeirra sem starfa við mannauðsmál eða sérhæfa sig í ráðgjöf og sölu á mannauðstengdri þjónustu. „Félagsfólki hefur fjölgað hratt undanfarin ár og í vikunni náðum við þeim tímamótum að verða 600 talsins,“ segir Ásdís.

Hlutverk félagsins er að efla fagmennsku, vera framsækið og leiðandi á sviði mannauðsstjórnunar í þágu atvinnulífsins. Félagsfólk er fjársjóður Mannauðs, en við erum fagfélag sem byggir á öflugu tengslaneti þar sem félagsfólk getur „sótt og veitt“ stuðning og faglega hvatningu. Við höfum lagt mikla áherslu á að vera vakandi fyrir straumum og stefnum svo félagið geti verið faglegur vegvísir í atvinnulífinu, geti haft mótandi áhrif og verið hreyfiafl breytinga.

„Ég held satt best að segja að það hafi aldrei verið jafn spennandi að vera í mannauðsmálum og nú, síðustu ár hafa vægast sagt verið rússíbani. Mannauðsfólk hefur verið í lykilstöðu til að bregðast við og aðlagast áskorunum heimsfaraldurs og setja fólk í forgang. Annað eins tækifæri hefur ekki gefist til að nýta þekkingu okkar og reynslu í að leiða breytingar og móta vinnustaði okkar til framtíðar.“

Fólk í forgang – mannauðsstjórinn er strategískur bandamaður

Í framkvæmdastjórn flestra fyrirtækja er mikill fókus settur á reksturinn. Það finnst öllum sjálfgefið að verja mikilli orku og tíma í að ræða rekstrar- og efnahagsreikninga, fjármuni og fjármögnun. Þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynlegt líka, þá skýtur skökku við hve fyrirferðarmikill slíkur fókus er, á kostnað þess að framkvæmdastjórnin gefi sér tíma til að ræða það sem snýr að starfsfólkinu sjálfu – undirstöðu þess að reksturinn geti yfirhöfuð gengið vel.

Snjallir leiðtogar vita að árangur er í fólkinu falinn og það sem eitt sinn dugði til að laða að starfsfólk gerir það ekki lengur. Rannsóknir sýna að það er ekki launatalan ein og sér sem heldur fólki í starfi. Hlutir eins og að upplifa að maður sé að vaxa, að maður fái orku úr viðfangsefnum sínum og samskiptum við samstarfsfólk, það að upplifa að maður tilheyri og að það sé tilgangur með því sem maður er að gera vegur töluvert þyngra hjá fólki í dag. Traust á vinnustað og sálrænt öryggi er forsenda þess að byggja upp menningu þar sem hugmyndir blómstra, starfsfólk upplifir ánægju í starfi og keppist við að ná árangri, en slíkt skapar ótvírætt samkeppnisforskot.

„Ef þú horfir á framkvæmdastjórnir fyrirtækja hér á Íslandi, hvaða manneskja er það sem hefur mestu þekkinguna á þessum málum og mun setja þau á dagskrá? Hiklaust mannauðsstjórinn,“ segir Ásdís.

Þarf áhuga og skilning

Hér er umbótatækifæri til staðar, því rannsóknir sýna að þó svo að framkvæmdastjórar um allan heim líti svo á að ein mesta áskorun þeirra sé að laða að og halda í hæft starfsfólk, þá raða þeir mannauðsteymi sín trekk í trekk sem áttundu eða níundu mikilvægustu skipulagseiningu fyrirtækisins. Þetta verður að breytast. Mannauðsstjórar geta öskrað sig hása við að reyna að sýna fram á virðið sem þeir geta skapað, en lítið gerist ef framkvæmdastjórinn áttar sig ekki á mikilvægi þess að hlusta. Sumir framkvæmdastjórar kvarta yfir að mannauðsstjórinn sé svo upptekinn í „admin“-hlutverki og skilji ekki bissnessinn. Það er hins vegar í þeirra valdi að lyfta hlutverkinu upp og veita meira umboð, rétt eins og þeir gerðu við hlutverk fjármálastjórans sem upp úr 1980 aðallega fól í sér hefðbundna bókhaldsvinnu. Rétt eins og fjármálastjórar í dag styðja við að fyrirtæki komi stefnu sinni í framkvæmd, þá getur mannauðsstjórinn stutt við árangur framkvæmdastjórans með því að byggja upp og efla hæfni stjórnenda og starfsfólks og leyst heilmikla orku úr læðingi innan fyrirtækisins.

Hjá framsýnustu fyrirtækjunum er það svo orðið þannig að það er ekki einungis ábyrgð mannauðsstjórans að setja málefni starfsfólks á dagskrá, heldur er krafan sú að allir í framkvæmdastjórn fyrirtækisins búi yfir blöndu af rekstrarþekkingu og þekkingu á mannauðsmálum og taki jafnt mið af þeim við skipulag og ákvörðunartöku. „Að mínu viti eiga stjórnendur ekki erindi í framkvæmdastjórn nema þeir hafi áhuga og skilning á vinnustaðamenningu, fólki og því sem hvetur það áfram,“ segir Ásdís að lokum.