Tals­verð að­sókn er í þjónustu ís­lenskra stefnu­móta­síða á Ís­landi. Mis­jafnt er þó hvert fólk leitar eftir því hverju það er að leita að. Frétta­blaðið leitaði upp­lýsinga hjá tveimur slíkum síðum um notkun í CO­VID-19, hvort hún hefði aukist og hvort það væri ein­hver breyting á notkun.

Á síðunni www.maka­leit.is hefur ekki verið aukning, en eig­andi merkir breytingu á not­enda­hópnum og hvernig hann notar síðuna. Á www.einkamal.is hefur orðið aukning frá því veiran kom upp en athyglisvert er að mesta aukningin var í sumar þegar far­aldurinn var í lág­marki á landinu.

Aukning hjá eldri not­endum

Björn Ingi Hall­dórs­son, eig­andi síðunnar www.maka­leit.is, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að það hafi ekki verið aukning í kórónu­veirufar­aldrinum en að hann sjái breytingu í aldri not­enda sinna.

„20 til 30 ára aldurs­hópur er að detta út en það þyngist í eldri aldurs­hópum. Það hefur ekki orðið aukning í CO­VID-19 hvað varðar heildar­fjölda en það hefur orðið hliðrun í aldurs­hópum. Núna eru einungis fjögur prósent virkra not­enda í aldurs­hópnum 20 til 30 ára, en 66 prósent í aldurs­hópnum 50 til 70 ára. Ef við skoðum svo bara 60 til 70 ára þá eru 28 prósent í þeim hópi. Svo að lokum eru sjö prósent í hópnum 70 til 80 ára,“ segir Björn Ingi í sam­tali við Frétta­blaðið.

Björn Ingi Hall­dórs­son er eig­andi síðunnar www.maka­leit.is.
Fréttablaðið/Stefán

Nánast sama hlutfall kynja

Spurður um kynja­skiptingu segir Björn Ingi hana nánast jafna nema í aldurs­hópnum 60 til 70 ára.

„Þar eru nokkuð fleiri konur en ég er að vonast til að fá inn fleiri karl­menn í þessum aldurs­hópi,“ segir Björn Ingi.

Hann segir að hann sjái líka breytingu á því hvernig not­endur noti síðuna og segir meðal annars frá því að fleiri svari svo­kölluðu per­sónu­leika­prófi á síðunni.

„Það eru rúm­lega 200 spurningar og það tekur smá tíma að svara því. Það eru 53 prósent not­enda sem hafa svarað því,“ segir Björn Ingi og bætir við:

„Ég hef alltaf sagt við fólk að það taki um 30 mínútur að svara þessu en svo á­kvað ég að fara sjálfur í gegnum hann og vanda mig mjög mikið og þá tók þetta góðar 45 mínútur. 53 prósent not­enda hafa svarað og það segir okkur að fólk er að vanda sig og að leita að ástinni,“ segir Björn Ingi.

Hann segir að það sem not­endur geti nýtt þennan lista í er að deila sínum svörum úr per­sónu­leika­pöruninni í orða­skýi, en þá eru tvær per­sónu­leikaparanir keyrðar saman og þá sést hversu vel not­endur passa saman.

Hann segir að það komi skýrt fram þegar fólk skrái sig að síðan sé ekki fyrir þá sem eru að leita að skyndi­kynnum og að það þurfi að stað­festa að það sé ekki í sam­bandi.

„Þarna er fólk sem er að leita að lífs­föru­naut. Það eru aðrir vefir þar sem fólk getur leitað að skyndi­kynnum og öðru en á þessum vef þá er það ekki. Sem dæmi þá þarf ég að sam­þykkja allar myndir sem sendar eru inn á síðuna og alla texta líka. Þeir birtast ekki fyrr en ég fer yfir þá. Það birtast engar dóna­myndir eða dóna­textar,“ segir Björn Ingi.

Hann segir það gerast mjög sjaldan að hann hafi þurft að eyða mynd. Það hafi gerst um fimm­tán sinnum á sjö ára tíma­bili.

„Það segir rosa­lega mikið um fólkið sem er að skrá sig og ég veit að fólk er þakk­lát fyrir að það sé ein­hver sía hjá mér,“ segir Björn Ingi.

Sett í bið þegar þau eru óvirk

Björn Ingi segir að hann hafi engin ákveðin mælitæki til að sjá hvernig fólki hafi vegnað inni á síðunni en hann sjái hins vegar þegar fólk hætti að nota síðuna eða verði óvirkt.

„Þegar notendur eru ekki virkir reglulega þá eru þau sjálfkrafa sett í bið af kerfinu og þau látin vita af því með tölvupósti. Ef hann hefur verið í bið í þrjá mánuði þá er sendur tölvupóstur og spurt hvort viðkomandi hafi fundið ástina,“ segir Björn Ingi.

Hann segir að frá þeim pósti hafi hann fengið ýmsar frásagnir frá fólki sem hafi fundið ástina inni á síðunni. 

„Ég er búinn að vera með síðuna frá 2013. Það er rosalega gaman að fá svona pósta um að fólk hefði aldrei hist ef ekki hefði verið fyrir síðuna. Þess vegna er maður að þessu,“ segir Björn Ingi.

Spurður hvort hann hafi séð miklar breytingar frá þeim tíma á viðhorfi fólks til slíkra síða segir hann þau töluverð.

„Ég hef tekið eftir þessu á fólkinu í kringum mig. Þetta var eiginlega bara feimnismál í fjölskylduboðum þegar ég byrjaði og mamma var ekki hrifin þegar ég sagði henni fyrst frá þessu. En núna deilir hún reglulega því sem ég set um vefinn á mitt Facebook. Það hefur breyst algerlega viðhorfið. Í dag er þetta eðlilegasti hlutur en var það alls ekki árið 2013. Fólk hefði ekki endilega þá sagt frá því hefði það fundið einhvern á netinu,“ segir Björn Ingi að lokum. 

Hér er hægt að kynna sér málið nánar.

Í orðaskýinu sést stærst það sem notandinn taldi mikil­vægast. Grænt það sem þeir völdu jafn mikið, gult næstum jafn mikið, appel­sínu­gult nokkuð ó­líkt og rautt mjög ó­líkt
Mynd/Makaleit.is

Mest aukning á milli bylgja

Á síðunni www.einkamal.is hefur verið aukning um tíu prósent í kórónuveirufaraldrinum. Spurð um mun á milli fyrstu og þriðju bylgju faraldursins segir í svari fulltrúa síðunnar að frá mars til maí hafi verið tíu prósent aukning en að frá ágúst til 16. nóvember hafi hún aðeins verið þrjú prósent.

Áhugaverðast sé að mesta aukningin í notkun hafi verið á milli þessara tímabila, í sumar, í jún og júlí en þá var faraldurinn í miklu lágmarki á landinu.

Mikill fjöldi para skráð

Spurð um þann aldurshóp sem notar síðuna segja þau að þau hafi ekki handhægar nýjar upplýsingar um aldur notenda en segja að það komi þeim alltaf skemmtilega á óvart hve ungur hópurinn er.

En miðað við svör frá Einkamál má eflaust gera ráð fyrir því að hópurinn sem noti síðuna sé að einhverju leyti ólíkur þeim sem noti síðuna Makaleit því að sögn eigenda Einkamáls er, sem dæmi, talsvert af pörum skráð sem skekki mælingar þeirra á kynjahlutföllum notenda.

„Ef við skoðum skráða notendur eru hlutföll 60 prósent konur og 40 prósent karlar. Ef við skoðum sömu tölfræði út frá notkun þá eru 71 prósent af vel virkum notendum karlar á móti 29 prósent konur. En það áhugaverða hér er að það eru á sama tíma mörg hundruð pör skráð á vefinn, það ruglar smá þessa tölfræði,“ segir í svari vefsins.

Margar síður og öpp eru í boði fyrir fólk sem er í leit að ástinni - eða jafnvel einhverju öðru.
Fréttablaðið/Getty

Innkoma Tinder hafi hjálpað með viðhorfsbreytingu

Spurð hvort þau merki jákvæðari viðhorf fyrir vefnum og þjónustunni í dag en fyrir kannski 5 eða 10 árum og hvort þeim finnist þau hafa breyst eftir að Tinder og önnur slík öpp urðu vinsæl segja þau að viðhorfið hafi mikið breyst á síðastliðnum fimm til tíu árum.

„Það er margt sem spilar inn í. Við höfum lagt mikla vinnu í að halda óæskilegum notendum frá vefnum. Þá eigum við um notendur sem auglýsa vændi og svo framvegis. Einnig hefur innkoma Tinder og álíka þjónusta hjálpað. Fólk talar meira opið um að það sé á Tinder, Einkamál og álíka þjónustum. Áhugaverða við innkomu þeirra er að hún hefur aðeins styrkt Einkamál.is,“ segir í svar vefsins.

Þau segja að mánaðarlega heimsæki um 50.000 einstaklingar (IP tölur) vefinn og að notendur verji að meðaltali 17 mínútum inni á vefnum í hvert skipti.

„Það eru meira en 22.000 virkir skráðir notendur og um 200-300 notendur skráðir inn á vefinn allan sólarhringinn.“

Þau segja eina stærstu ástæðuna fyrir vinsældum vefsins hversu vel Íslendingar þekkja vefinn.

„Hann hefur verið til í hátt í 20 ár. Er verið vinsælasti stefnumótavefur landsins öll þessi ár og Íslendingar vita að þarna er mestur fjöldi fólks í sömu hugleiðingum og það sjálft,“ segir að lokum.