Meðgangan var löng en nú er fæðing afstaðin,“ segir listakonan Inga Sigríður Ragnarsdóttir glaðlega um útkomu bókarinnar Deiglumór, keramik úr íslenskum leir 1930–1970. Það er stór bók og fyrir utan fróðleik og frásagnir prýðir hana fjöldi mynda. „Arnari Frey Guðmundssyni hefur tekist frábærlega að hanna bókina, að mínu mati,“ segir Inga Sigríður, sem er höfundur ásamt Kristínu G. Guðnadóttur listfræðingi. Sigríður Sigurjónsdóttir, safnstjóri Hönnunarsafns Íslands, hefur lagt þeim lið og ritar formála. „Samstarfið við Sigríði hefur verið ánægjulegt og auðvitað frábært að út úr því hafi komið sýning,“ segir Inga Sigríður, því meðfram útgáfu bókarinnar var opnuð samnefnd leirlistasýning í Hönnunarsafninu.

Hóf rannsóknir á efninu 2003

Höfundarnir hófu ritun bókarinnar 2018 en Inga Sigríður kveðst hafa stundað rannsóknir á efninu frá 2003, með hléum. Hvað finnst henni standa upp úr eftir þær? „Til dæmis að uppgötva að á 19. öld var uppi Breiðfirðingur sem framleiddi leirskálar. Það var Benedikt Oddsson í Skáley, lítilli eyju við Skógarströndina. Hann var skáld, bóndi og keramiker, sem notaði leir úr Dölunum og fékk styrk frá Landssjóði árið 1879 til að læra að framleiða leirmuni. Guðmundur frá Miðdal nefnir einhvers staðar að Theódóra Thoroddsen skáld hafi átt fallega skál sem hann gerði og nokkra afkomendur hennar rekur minni til að hafa heyrt um skálina. En styrkurinn sem Benedikt fékk var of lítill til að hann treysti sér til að fara út í lönd að læra leirkeragerð eins og hann ætlaði sér.“

Deiglumór er gamalt orð yfir íslenska leirinn, að sögn Ingu Sigríðar. Hún segir vísbendingar vera um að hann hafi verið nýttur frá upphafi byggðar í landinu. „Þótt faðir minn, Ragnar Kjartansson myndhöggvari, væri ekki aftan úr fornöld notaði hann þetta gamla orð stundum, hann hafði brennandi áhuga á leirnum og stofnaði verkstæðið Funa 1947 með þremur öðrum og síðar Glit 1957. Svo var tímamótasýning 1960 í Ásmundarsal þar sem höfundarnir voru Ragnar og Dieter Roth. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson (1923–1988) er útgefandi bókarinnar.“

Upphaf íslenskrar listhönnunar

Frumherji leirlistar á Íslandi er talinn Guðmundur Einarsson frá Miðdal, hann náði tökum á íslenska leirnum, gangsetti verkstæði 1930 og hélt fyrstu sýninguna í desember það ár, að sögn Ingu Sigríðar. „Bókin átti að koma út í desember 2020 í tilefni þess að 90 ár voru frá því Guðmundur, Lydía kona hans og fleiri samstarfsmenn hófu starfsemi í Listvinahúsinu. En vegna COVID-19 frestaðist útgáfan.“ Í formála bókar kemur fram að umrædd sýning í Listvinahúsinu marki upphaf íslenskrar listhönnunar og næstu ár á eftir hafi fólk oft staðið í röðum utan við verkstæði Guðmundar þegar fréttist að taka ætti nýja muni úr brennsluofninum. Sautján ár liðu þar til verkstæðum fjölgaði en úr því spruttu þau upp eitt af öðru og myndir í bókinni sýna framleiðslu þeirra.

Inga Sigríður minnist á að nú sé 40 ára afmæli Leirlistafélagsins en segir bókina eiginlega enda 1970 þegar gömlu meistararnir hættu og einnig var hætt að nota íslenska leirinn. „Þá voru komnir nýir keramikerar, ný efni, ný tæki og Myndlistaskólinn búinn að setja upp sérstaka keramikdeild.“

Lydia situr við rennibekkinn. Hér sést vel hversu dökkur íslenski leirinn var.
Á myndinni sést vaskur hópur starfsfólks í verkstæðinu Funa.
Fimmhálsa vasi úr Laugarnesleir, Gestur og Rúna 1950.
Vasi eftir Kjartan Ragnarsson, 1957.
Kanna eftir Guðmund frá Miðdal.
Kaffistell eftir Dieter Roth, 1960.