Þennan september fer Extreme Chill hátíðin fram og er þetta í níunda sinn sem hátíðin er haldin og verður það dagana 6.-9. september. Í ár verður fókusinn á konur í raftónlist og listum, og verða því nokkrar færustu konurnar á sviði raftónlistar bókaðar á hátíðina bæði til að spila og flytja fyrirlestra.

„Það er svo mikið af flottum konum núna sem eru að gera alveg geggjaða hluti í senunni, bæði hérna heima og erlendis. Hugmyndin er að reyna að jafna kynjahlutföllin – ef þú skoðar dagskrána á hátíðum í dag þá er ekkert mikið verið að spá í þessu, það er langmestur meirihluti karlar. Jafna þarf kynjahlutfall á öllum sviðum listarinnar að mínu mati þannig að fyllsta jafnræðis sé gætt,“ segir Pan Thorarensen, einn umsjónarmanna hátíðarinnar.

Opnunarkvöld hátíðarinnar fer fram í Kaldalóni í Hörpu og þar verða einungis konur að sjá um raf-tónana og nefnist það kvöld Konur á sveimi, enda hefur sveimkennd og rafræn tónlist einkennt hátíðina allt frá byrjun. Kvöldið er styrkt af Ýli Tónlistarsjóði.

Extreme Chill er nú partur af nýju verkefni sem kallast Upnode Network. Um er að ræða norrænt samstarf á milli allra helstu raftónlistarhátíða Norðurlanda. Upnode Network hlaut nýverið styrk til fimm ára frá Nordic Culture Point.

„Þetta eru átta tónlistarhátíðir á Norðurlöndunum – Extreme Chill er eina hátíðin frá Íslandi. Við erum að hittast í hverjum mánuði að „breinstorma“ og með panela og alls konar. Þarna eru rosalegar pælingar varðandi framtíðina og hvernig hátíðirnar eiga að vera. Við erum líka að senda listamenn á milli landa – við sendum íslenska raftónlistarmenn út og fáum hingað listamenn frá hinum Norðurlöndunum.“

Pan segir hátíðina í ár vera í stærri kantinum en hún verður haldin í Hörpu á fimmtudegi, svo færa þau sig yfir í Gamla bíó á föstudag, laugardagurinn er á Húrra og svo verður hátíðin kláruð í Fríkirkjunni. Fyrir utan þetta verða eftirpartí með plötusnúðum á fleiri stöðum sem kynntir verða betur þegar nær dregur.

Nöfn sem hafa verið tilkynnt á hátíðina eru: Jan Jelinek, Banco De Gaia, Bára Gísladóttir, Astrid Sonne, Ragnhild May, Marsen Jules, Hafdís Bjarnadóttir, Dj flugvél og Geimskip, Sillus o.fl.

Miðar eru komnir í sölu á midi.is