Í tilefni af 30 ára afmæli UN Women á Íslandi munu þau á morgun hefja sölu á Fokk ofbeldi buffum. Eins og má sjá á myndunum sem fylgja eru þau svört með fíngerðu FO-mynstri í stíl við húfurnar sem seldar hafa verið til styrktar samtakanna síðustu ár. Eins og með kaupum á húfunum þá styrkirðu samtökin með kaupum á buffinu. 

„Með því að kaupa Fokk Ofbeldi buffið tekur þú þátt í að lýsa upp myrkur kvenna og stúlkna sem þurft hafa að þola ofbeldi. Allur ágóði rennur til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. 

Buffið fer í sölu á morgun, þann 14. febrúar, á vefsíðu samtakanna, auk þess sem það verður selt á viðburðinum Milljarður rís sem fer fram í Hörpu á milli klukkan 12.15 og 13. 

Ráðherra setur af stað dansbyltingu

Danshátíðin Milljarður rís er haldin í sjöunda skiptið hér á landi á morgun. Í tilefni af 30 ára afmæli samtakanna verður viðburðurinn sérstaklega glæsilegur í ár. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær mun Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setja hátíðina á morgun. 

Sjá einnig: Lilja Dögg hleypir af stað dansbyltingu

Fólk er hvatt til að mæta með FO-húfurnar sínar á svæðið, nýjar sem gamlar, og taka sínar eigin FO myndir með „Insta-myndavélakassanum“ sem verður á staðnum. 

Líkt og fyrri ár er það plötusnúðurinn DJ Margeir sem stýrir tónlistinni og fær hann til liðs við sig glæsilegan hóp tónlistarfólks sem sér til þess að mannskapurinn hristi sig og skekji. Fram koma diskódúettinn Þú og ég, Amabamadama, Auður, Svala Björgvins, GDRN, Högni, Daníel og Cell7.

Viðburðurinn er ekki bara haldinn í Hörpu, heldur verðu einnig dansað í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshótel á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, íþróttahúsinu Neskaupstað, íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum, í Hnyðju í Hólmavík, íþróttahúsinu Grundarfirði, Nýheimum á Höfn í Hornafirði, íþróttahúsinu Iðu á Selfossi og Hofi á Akureyri. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér á Facebook.