Í kvöld spilar tónlistar­maðurinn Eðvarð Egilsson á Vínyl Bistró. Tónleikarnir eru liður í Extreme Chill Festival, sem í ár er með breyttu sniði, og fer fram í Reykjavík 12.-15. september. Því má segja að tónleikarnir í kvöld sé nokkurs konar upphitun fyrir tónlistarhátíðina.

Byrjaði alveg upp á nýtt

„Pan Thorarensen, sem sér um hátíðina, hafði samband við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að spila. Ég er búinn að vera að vinna í þessari plötu í tæplega tvö ár, það er alltaf þessi klassíska frestunarárátta. En þegar hann bað mig að spila, ákvað ég að slá bara til og vera með. Í kvöld frumflyt ég því nýtt efni á Vínyl,“ segir Eðvarð.

Fyrr á árinu fékk Eðvarð aðstöðu í Hljóðheimum sem hann var einstaklega ánægður með.

„Það veitti mér mikinn innblástur og ég hef verið að byggja upp stúdíóið síðan, sem ég kalla Stúdíó Sprungu. Það var þá sem ég ákvað að setjast niður og klára plötuna. Ég var búinn að gera heila aðra plötu en hlustaði á hana og var ekki nógu ánægður með hana. Svo ég byrjaði bara upp á nýtt. Það eru nokkur tilbúin lög og alveg 150 uppköst að lögum.“

Tók U-beygju í tónlistinni

Þetta verða fyrstu tónleikar Eðvarðs undir eigin nafni, en hann semur einnig tónlist undir nafninu Kíruma. Áður samdi hann einnig undir nafninu Eddie House en þá var hann partur af hljómsveitinni Steed Lord.

„Ég bjó í Los Angeles í níu ár, þá var þetta frekar ólíkt og við vorum mikið að spila og túra. Það er öðruvísi upplifun. Þegar á leið fór ég að hafa meiri og meiri áhuga á kvikmynda- og klassískri tónlist. Síðustu fimm ár hef ég unnið með skrifstofu í New York og hef í gegnum hana verið fenginn til að semja tónlist við auglýsingar fyrir fyrirtæki á borð við Mercedes Benz og Lincoln. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt,“ segir Eðvarð.

Kíruma er meira elektrónísk tónlist, og var stef frá Eðvarði notað í tölvuleikinn Pro Evolotution Soccer 2019.

„Ég hef samt aldrei sest niður fyrir framan fólk við píanó eða hljómborð og spilað það sem ég er að semja hérna heima. Ég er spenntur að opna fyrir það líka, það er svo miklu persónulegra. Nú er þetta bara ég, bara Eðvarð Egilsson.“

Ætlaði alltaf aftur út

Þegar Eðvarð var úti í Los Angeles hafði hann mikinn áhuga á því að færa sig meira út í kvikmyndatónlist. Hugurinn leitaði þó heim og lendingin var að fara í nám við Listaháskóla Íslands að læra klassískar tónsmíðar, þótt hugmyndin hafi alltaf verið sú að fara aftur út til Los Angeles eftir það. Á einu og hálfu ári var þó allt breytt, hann varð ástfangin og eignaðist dóttur.

„Þetta breyttist allt heldur betur. Ég byrja í skólanum og að læra hjá svo frábærum kennurum. Ég nýt leiðsagnar Páls Ragnars Pálssonar, hann er minn maestro eiginlega. Svo læri ég hjá Atla Ingólfssyni og er að byrja byrja læra á slagverk hjá Áskeli Mássyni.“

Dóttirin breytti öllu

Eðvarð kynntist sellóleikaranum Unni Jónsdóttur og í dag eiga þau dótturina Eyju.

„Við erum mikið að músísera saman, það er frábært að geta skilið hvort annað svona vel með það. Þannig að Eyja venst líka því að heyra foreldra sína stanslaust spilandi. Hún er fimm mánaða og finnst mjög gaman að spila á gítarinn og sellóið, en við treystum henni ekki alveg strax fyrir sellóinu,“ segir Eðvarð hlæjandi.

Hann segir að það að hafa eignast Eyju hafi haft mikil og góð áhrif á tónlistargerðina hjá honum.

„Það opnaði svo fyrir margt og kjarnaði mig svo mikið. Það veitti mér svo mikið öryggi. Ég þori meira að vera ég sjálfur og spila það sem er mér sjálfum kært. Svo er það auðvitað þvílíkur innblástur að hafa fengið þær Unni og Eyju í líf mitt.“

Eðvarð spilar í kvöld á Vínyl Bistro, Hverfisgötu 76. Það er ókeypis inn og tónleikarnir hefjast klukkan 21.00.