Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og framsóknarmaður og eiginkona hans, Margrét Hauksdóttir, hafa fest kaup á íbúð á Selfossi. Íbúðin er í nýja miðbænum og segjast hjónin spennt að komast aftur heim.

Hjónin hafa búið í Reykjavík í um áratug, síðustu níu ár í Skuggahverfinu. Þau eru Selfyssingar í húð og hár, bæði Flóamenn. Spurður að því hvað varð til þess að þau flytji aftur á Selfoss segist Guðni hafa fundið fyrir heimþrá.

„Römm er sú taug sem rekka dregur föður túna til,“ segir Guðni.

Suðaði í Margréti í mörg ár

Hann segist hafa suðað í Margréti árum saman að flytja aftur heim en hún hafi ekki verið tilbúin.

„Ég fór að suða í henni fyrir fimm árum síðan, ég vildi komast aftur austur og eiga þar fallega og skemmtilega daga þó að margt sé prýðilegt hér í höfuðborginni,“ segir Guðni.

„Heim vil eg, svo ég suðaði í þrjú ár en enginn var árangurinn. Svo fór ég með Margréti austur í sumar og þar hafið risið hið glæsilega mjólkurbú Flóamanna, fegursta hús landsins,“ segir Guðni og vísar til nýjar miðbæjarins á Selfossi þar sem nú er mathöllin, Mjólkurbúið á Selfossi.

„Svo ég sagði við mína hvort við ættum ekki bara að bregða okkur þarna og fá okkur hamborgara og jújú hún vildi það,“ segir Guðni.

Margrét og Guðni eru spennt að flytja aftur heim á Selfoss.
Mynd/Aðsend

Keypti íbúðina á meðan Guðni horfði út um gluggann

Í mathöllinni hittu Guðni og Margrét Leó Árnason sem Guðni kallar „Ljón suðursins,“ en hann hefur stýrt uppbyggingu miðbæjarins. Margrét spyr Leó hvort að enn séu lausar íbúðir í miðbænum og hann játar því.

„Við förum með honum og skoðum íbúð þar sem ég horfi á fegurðina og yndisleikann út um gluggann. Sé upp í Biskupstungur alla leið, Ingólfsfjallið og á okkar æskustöðvar. Svo sé ég að Margrét fer að handsala eitthvað og kyssa Leó, þá var hún búin að kaupa,“ segir Guðni og skellir upp úr.

Hjónin hafa nú selt íbúð sína í Skuggahverfinu og verða flutt á Selfoss fyrir jól.

Hætti loksins að hamast í henni

Aðspurð að því hvað hafi orðið til þess að hún skipti um skoðun varðandi flutningana segir Margrét svarið tvíþætt. „Hann var alltaf að hamast í mér með þetta en lét mig svo í friði í tvö ár,“ segir hún.

„Ég var ekki tilbúin því að yngsta dóttir mín á tvær litlar dömur sem ég varð að gera það sama fyrir þær og hin fimm barnabörnin sem núna eru orðin öll unglingar og upp komin. Núna eru þær orðnar sex og níu ára og ég fann að stundin var komin,“ segir Margrét.

Þau Guðni segjast spennt fyrir flutningunum, nýja íbúðin sé hugguleg, stutt sé í alla þjónustu og gott verði að komast heim. „Ég sagði við Margréti að við gætum bara hætt að elda heima ég bjóði henni út á hverju kvöldi,“ segir Guðni.